Innlent

Þungar áhyggjur af útboði bæjarins á starfsemi Salarins

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Salurinn og Gerðarsafn eru í hópi fimm menningarstofnana Kópavogsbæjar.
Salurinn og Gerðarsafn eru í hópi fimm menningarstofnana Kópavogsbæjar. Vísir/Vilhelm

Stjórn Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, lýsir þungum áhyggjum yfir áformum bæjarstjórnar Kópavogsbæjar um að bjóða út starfsemi Salarins í Kópavogi.

Greint var frá því í apríl á þessu ári að meðal skipulagsbreytinga hjá Kópavogsbæ væru breytingar á starfsemi menningarhúsa bæjarins, þar á meðal Salnum, tónleikasal bæjarins á Borgarholti, sem tekinn var í notkun árið 1999. 

Í ályktun stjórnar Klassís segir að með útboði telji félagið að hlutur klassískrar tónlistar á fjölum Salarins skerðist verulega eða hverfi með öllu, og bitni því á starfsmöguleikum félagsmanna Klassís.

„Salurinn í Kópavogi var fyrsti tónleikasalur landsins sem var sérhannaður með kammertónlist í huga og hefur verið heimili fyrir frábærar tónleikaraðir klassískrar tónlistar á borð við Tíbrá og Syngjandi í Salnum,“ segir í ályktuninni.

Kópavogsbær taki með þessu „stórt skref afturábak í uppbyggingu menningar og lista í bænum.“

„Við skorum á bæjarstjórn Kópavogsbæjar að endurskoða þessi áform sín og sýna í verki að Kópavogsbær sé enn sá menningarbær sem hann áður var.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×