Erlent

Segir allt koma til greina til að kveða niður glæpa­ölduna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ulf Kristofersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, var ómyrkur í máli í ávarpi til sænsku þjóðarinnar þar sem hann sagði allt yrði tekið til greina til að stemma stigu við stríði glæpagengja í landinu.
Ulf Kristofersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, var ómyrkur í máli í ávarpi til sænsku þjóðarinnar þar sem hann sagði allt yrði tekið til greina til að stemma stigu við stríði glæpagengja í landinu. EPA-EFE/Henrik Montgomery

Ulf Kristers­son, for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar, segir stjórn­völd þar í landi munu beita öllum sínum ráðum til þess að kveða niður glæpa­ölduna sem riðið hefur yfir landið. Hann á­varpaði sænsku þjóðina vegna málsins nú síð­degis og kynnti breytingar á lögum landsins.

Sjaldan hafa of­beldis­verk sem tengjast á­tökum glæpa­gengja verið eins á­berandi í Sví­þjóð og nú. Síðasta sólar­hringinn eru þrjú dauðs­föll rakin til á­takanna og er septem­ber­mánuður orðinn sá mann­skæðasti í fjögur ár. Það sem af er mánuðinum hafa ellefu dauðs­föll verið rakin til á­taka glæpa­gengja.

Í á­varpi sínu byrjaði Ulf á því að á­varpa fjöl­skyldur hinna látnu og annarra sem hafa orðið fyrir barðinu á of­beldinu síðustu mánuði. Hann sagði að hugur sinn væri hjá þeim. Þá lagði Ulf á­herslu á að hafa hendur í hári með­lima glæpa­gengjanna.

„Við beitum öllum til­tækum ráðum, það kemur allt til greina,“ segir Ulf. Hann sagði sænsk lög ekki gera ráð fyrir stríði glæpa­gengja líkt og þessu og að börn væru notuð í þeim til­gangi. Sagði hann að breytingar yrðu gerðar á lög­gjöf landsins til að bregðast við.

Þegar hefur sænska ríkis­stjórnin fyrir­skipað að fangelsis­mála­yfir­völd ráðist í gerð sér­stakra ung­lingafangelsa sem eigi að vera til­búin 2026. Stór hluti þeirra sem standa fyrir skot­á­rásum og sprengingum eru ungir piltar, undir lög­aldri.

Þá hvatti for­sætis­ráð­herrann alla stjórn­mála­flokka landsins til þess að sam­einast í bar­áttunni gegn of­beldinu. Hann þakkaði jafn­framt lög­reglu­yfir­völdum í landinu fyrir sín störf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×