Erlent

Fjórir látnir eftir um­sátur í Kósovó

Atli Ísleifsson skrifar
Innanríkisráðherra Kósovó segir að lögregla hafi handtekið fjölda manns í aðgerðunum í dag.
Innanríkisráðherra Kósovó segir að lögregla hafi handtekið fjölda manns í aðgerðunum í dag. AP

Fjórir eru látnir eftir að hópur vopnaðra manna girti sig af í klaustri í Kósovó, nærri landamærunum að Serbíu, í dag. Umsátursástand myndaðist og kom til fjölda skotbardaga milli mannanna og kósovósks lögregluliðs.

Xhelal Svecla, innanríkisráðherra Kósovó, sagði eftir að umsátrinu var lokið að lögregla hafi náð stjórn á svæðinu eftir röð skotbardaga. 

Drápu lögreglumann og særðu annan

Fréttir bárust af því í morgun að hópur vopnaðra manna hafi ráðist úr launsátri á eftirlitsstöð lögreglu nærri bænum Banjska. Einn lögreglumaður lést í árásinni og annar særðist í árásinni, en kósovósk stjórnvöld sögðu að um hafi verið að ræða „serbneska glæpahópa“ sem bæru ábyrgð á árásinni.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum stjórnvalda í Kósovó og Serbíu síðustu misserin, en Serbar neita að viðurkenna sjálfstæði Kósovó og hafa haldið tengslum við þjóðbrot Serba sem eru fjölmennir í norðurhluta Kósovó. Viðræður milli serbneskra og kósovóskra stjórnvalda um að koma á bættum samskiptum hafa litlu skilað.

Tveimur landamærastöðvum var lokað í dag vegna árásarinnar, í Jarinje og Brnjak.AP

Flúðu inn í klaustur

Eftir árásina á eftirlitsstöðuna flúðu vopnuðu mennirnir inn í klaustur skammt frá þar sem þeir girtu sig af. Til skotbardaga kom milli mannanna og lögregluliðs, en umsátrið stóð í margar klukkustundir. Lögregla segir að þrír vopnuðu mannanna hafi fallið í skotbardaganum.

Albin Kurti, forsætisráðherra Kósóvó, sagði fyrr í dag að þrjátíu vopnaðir menn hið minnsta hefðu girt sig af í klaustrinu og hvatti þá til að gefast upp og gefa sig fram. Sagði hann árásina á eftirlitsstöð lögreglu hafa verið hryðjuverkaárás og sagði hann stjórnvöld í Serbíu bera þar ábyrgð.

Fordæmdi árásina

Innanríkisráðherrann Svecla segir að lögregla hafi handtekið fjölda manns í aðgerðunum í dag og lagt hald á mikið magn vopna og skotfæra. Erlendir fjölmiðlar segja þó óljóst hvort að allir hinna vopnuðu hafi verið handteknir í aðgerðunum.

Tveimur landamærastöðvum var lokað í dag vegna árásarinnar, í Jarinje og Brnjak.

Aleksandar Vucic Serbíuforseti fordæmdi í dag árásina á eftirlitsstöðina þar sem kósóvski lögreglumaðurinn lést, en kenndi þó Kurti um að ofsækja Serba í Kósovó.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.