Eftir hörmulegt tímabil á síðustu leiktíð horfði Chelsea fram veginn, leikmenn voru seldir í hrönnum og fjölmargir komu inn í staðinn. Raunar hefur félagið eytt áður óheyrðum upphæðum í leikmenn síðan Todd Boehly og fjárfestingasjóðurinn Clearlake Capital keypti félagið.
Gengi liðsins á tímabilinu hefur hins vegar slakt, raunar hefur það vera skelfilegt. Einn sigur í fyrstu fimm leikjunum í úrvalsdeildinni og sá kom gegn nýliðum Luton Town.
Stuðningsfólk Chelsea hefur þó fengið jákvæðar fréttir en Boehly og félagar hafa verið í viðræðum við stjórnarmenn Ares Management um að koma með fjármagn inn í félagið. Ekki er um smá fjármagn að ræða en talið er að sjóðurinn ætli sér að setja fjögur hundruð milljónir punda í félagið.
Samkvæmt frétt ESPN um málið færi sú upphæð annað hvort í að endurbyggja Stamford Bridge, heimavöll liðsins, eða færa hann á nýjan stað. Þá færi hluti upphæðarinnar í að betrumbæta æfingasvæði liðsins.
Það má áætla að fjármál Chelsea verði áfram í deiglunni en eyðsla þeirra undanfarin misseri hefur vakið mikla athygli sem og samningar leikmanna en fjöldi leikmanna liðsins er nú á samning fram til ársins 2030 eða lengur.