Fótbolti

Barcelona hefur áhuga á að fá útlægan Sancho

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jadon Sancho er í hálfgerðri útlegð hjá Manchester United.
Jadon Sancho er í hálfgerðri útlegð hjá Manchester United. Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Spænska stórveldið Barcelona er sagt áhugasamt um að fá Jadon Sancho í sínar raðir frá Manchester United.

Sancho hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá Manchester United undanfarnar vikur og hefur hann nú verið settur út í kuldann af þjálfara liðsins, Erik ten Hag.

Sancho og Ten Hag lenti saman á dögunum eftir að leikmaðurinn var ekki valinn í leikmannahóp liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Eftir leik var Ten Hag spurður út í fjarveru Sancho og sagði þjálfarinn að hann hafi ekki staðið sig nógu vel á æfingum og því væri hann ekki valinn í hópinn.

Sancho var, kannski eðlilega, ekki sáttur við þessi ummæli þjálfarans og sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hann sagði meðal annars að verið væri að gera hann að blóraböggli. Leikmaðurinn hefur hins vegar eytt færslunni síðan þá.

Eftir þessi orðaskipti Sancho og Ten Hag hefur leikmaðurinn verið settur út í kuldann hjá Manchester United. Hann fær ekki að æfa með aðalliðinu og því velta margir fyrir sér hvað framtíðn ber í skauti sér fyrir þennan 23 ára gamla vængmann.

Nú greinir spænski miðillinn Sport.es frá því að spænsku meistararnir í Barcelona hafi áhuga á því að fá Sancho í sínar raðir. Sancho er hins vegar samningsbuninn Manchester United og félagsskiptaglugginn lokaður og því gæti reynst erfitt fyrir Börsunga að fá leikmanninn strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×