Fótbolti

Åge eftir sinn fyrsta sigur sem þjálfari Ís­lands: „Ég elska þennan hóp“

Aron Guðmundsson skrifar
Age Hareide á hliðarlínunni í kvöld
Age Hareide á hliðarlínunni í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Åge Hareide, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta, segir dramatískan sigur liðsins gegn Bosníu & Herzegovinu í undan­keppni EM í kvöld hafa mikla þýðingu fyrir leik­manna­hópinn. Hann segist hafa tekið mikla taktíska á­hættu er leið á leikinn, hún borgaði sig.

Ís­land vann 1-0 sigur gegn Bosníu. Leikurinn var afar lokaður en um miðjan síðari hálf­leik fór Ís­land að sækja meira sem endaði með sigur­marki Al­freðs Finn­boga­sonar í upp­bóta­tímar. Sigur liðsins lyftir Íslandi upp fyrir Bosníu í 4. sæti J-riðils þar sem að liðið situr með sex stig.

„Í fót­bolta skiptir það öllu máli að vinna leiki. Þegar að við töpum leikjum verðum við að sjálf­sögðu von­sviknir og það hvernig við töpuðum leiknum gegn Lúxem­borg var ó­líkt því sem við höfum fengið að kynnast sem ís­lensku leiðinni í gegnum tíðina,“ sagði Åge í við­tali eftir leik.

Þar gerðum við mörg mis­tök, litum ekki út fyrir að vera lið og við töluðum um það eftir leik. Leik­mennirnir áttu þennan sigur hér í kvöld skilið. Við höfum verið svo ná­lægt því að ná í úr­slit, til að mynda gegn Portúgal og Slóvakíu en í fót­bolta þarftu að klára færin þín, góð færi í kvöld fóru meira að segja for­görðum hjá okkur.“

Klippa: Åge Hareide létt

Åge hafði alltaf trú á því að ís­lenska liðið gæti náð inn marki fyrir leiks­lok.

„Ég vonaði að sjálf­sögðu að við myndum ná inn markinu og við settum inn á auka fram­herja. Orri stóð sig virki­lega vel í kvöld og ég vissi að ef við myndum setja Al­freð inn á þá myndu þeir tveir ná að vinna mjög vel saman og ná að setja meiri pressu á öftustu línu Bosníu.

Þá var miðjan hjá okkur einnig mjög öflug. Við skiptum yfir í 4-4-2 leik­kerfið undir lok leiks og ég held að með því höfum náð að koma Bosníu­mönnum á ó­vart. Í staðinn fyrir að reyna verja þetta eina stig sem við vorum með í hendi þá á­kváðum við að fara á eftir öllum þremur stigunum. Það tókst sem betur fer.“

Åge viður­kennir að á þeim tíma­punkti leiksins hafi hann verið að taka mikla á­hættu með leik­skipu­lag ís­lenska liðsins.

„Það er stundum svona með þessi taktísku upp­legg. Ef þau heppnast þá verður maður rosa­lega glaður, ef þau takast ekki þá verður maður fyrir gífur­legum von­brigðum.“

Hann segir ís­lenska lands­liðið, sem ein heild, hafa litið mjög vel út í kvöld.

„Ég held að leik­menn hafi öðlast meiri trú á sér eftir því sem leið á leikinn. Við sköpuðum okkur þó­nokkur færi, mörg þeirra fóru for­görðum en andinn í þessu liði á þessari stundu er mjög góður. Ég er rosa­lega á­nægður fyrir hönd strákanna. Nú getum við leyft okkur að hlakka til næstu leikja, meðal annars tveggja heima­leikja, og byggt ofan á það sem við byggðum í kvöld.“

Hvaða þýðingu telur þú að þessi sigur hafi fyrir leik­manna­hópinn?

„Sigurinn hefur mikla þýðingu fyrir þá. Í fót­bolta snýst allt um að vinna leiki og maður getur að­eins byggt ofan á góð úr­slit vegna þess að þau veita þér sjálfs­traust til þess að halda á­fram á sömu leið. Ég elska þennan hóp vegna þess að hann er sam­heldinn, þetta eru góðir fót­bolta­menn og þá lofar fram­tíðin einnig góðu hvað okkar ungu leik­menn varðar.

Fram­tíðin er mjög á­huga­verð hvað ís­lenska lands­liðið varðar. Núna þurfum við að finna réttu leiðina að því að byggja upp leik­manna­hópinn á þeim gildum sem við sáum hér í kvöld, vinnu­semi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×