Umfjöllun og myndir: Ís­land - Bosnía og Hersegóvína 1-0 | Alfreð tryggði sætan sigur

Andri Már Eggertsson skrifar
Alfreð var afar ánægður með markið
Alfreð var afar ánægður með markið Vísir/Hulda Margrét

Ísland vann 1-0 sigur gegn Bosníu. Leikurinn var afar lokaður en um miðjan síðari hálfleik fór Ísland að sækja meira sem endaði með sigurmarki Alfreðs Finnbogasonar í uppbótartímar. 

Leikurinn fór rólega af stað og það var lítið um færi. Ísland var með leikinn í fínu jafnvægi fyrsta korterið og það var engin ástæða til að hafa áhyggjur af spilamennsku Íslands þrátt fyrir að hafa ógna lítið marki Bosníu.

Það var hart barist í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Stuðningsmenn Bosníu fjölmenntu á Laugardalsvöll og létu vel í sér heyra. Miðað við stuðninginn sem Bosnía fékk úr stúkunni mætti halda að leikurinn væri spilaður á þeirra heimavelli. Fyrir utan Víkingaklappið á tólftu mínútu heyrðist lítið í Tólfunni í fyrri hálfleik.

Stuðningsmenn Bosníu létu vel í sér heyraVísir/Hulda Margrét

Það var lítil ákefð hjá Bosníu sem opnaði vörn Íslands afar sjaldan. Aftur á móti hafði Ísland lítið sem ekkert fyrir því að færa liðið ofar á völlinn.

Ermedin Demirovic, leikmaður Bosníu, fékk besta færi fyrri hálfleiks á 43. mínútu. Boltinn datt fyrir hann í teignum nálægt marki þar sem hann átti skot en Hjörtur Hermannsson gerði vel í að fleygja sér fyrir boltann.

Jóhann Berg og Mikael Neville standa fyrir aftan boltann Vísir/Hulda Margrét

Staðan í hálfleik var markalaus og dómari leiksins bætti engum uppbótartíma við.

Það mætti halda að þjálfarar beggja liða hafi ekki talað við sína menn. Seinni hálfleikur byrjaði nákvæmlega eins og fyrri hálfleikur spilaðist. Það var lítil ákefð í báðum liðum og færin voru af afar skornum skammti.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var á leiknumVísir/Hulda Margrét

Það færðist líf í íslenska liðið um miðjan síðari hálfleik. Mikael Neville Andersson fékk dauðafæri eftir 65 mínútna leik. Hákon Arnar Haraldsson átti frábæra sendingu frá hægri yfir á vinstri þar sem Mikael komst í góða stöðu fyrir utan teig en náði ekki að setja boltann á markið.

Arnór Ingvi Traustason spilaði vel á miðjunni í dagVísir/Hulda Margrét

Skömmu seinna bjó Hákon Arnar til annað færi fyrir Mikael Neville sem náði ekki að taka boltann með sér og Ibrahim Sehic, markmaður Bosníu, lokaði á hann.

Hákon Arnar Haraldsson skapaði hættuleg færi í kvöldVísir/Hulda Margrét

Åge Hareide, þjálfari íslenska landsliðsins, gerði breytingarnar eftir 76 mínútur. Jón Dagur Þorsteinsson og Alfreð Finnbogason komu inn á fyrir Mikael Neville og Willum Þór. Þessar breytingar áttu eftir að hafa áhrif á leikinn.

Þremur mínútum síðar fékk Jón Dagur dauðafæri til þess að brjóta ísinn. Orri Steinn var kominn í góða stöðu inn í teig þar sem hann renndi boltanum á Jón sem skóflaði boltanum yfir markið af stuttu færi.

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp sigurmarkiðVísir/Hulda Margrét

Það var síðan í uppbótartíma þegar Jón Dagur átti góða sendingu fyrir markið á Alfreð Finnbogason sem skoraði og Laugardalsvöllur trylltist af gleði. Markið var skoðað í VAR sem gerði augnablikið afar sætt þegar markið fékk að standa.

Niðurstaðan 1-0 sigur Íslands og þetta var fyrsti sigur Íslands í mótsleik á Laugardalsvelli í sjö hundruð daga.

Ísland vann afar sætan 1-0 sigurVísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira