Erlent

Sjósettu kafbát sem borið getur kjarnorkuvopn

Samúel Karl Ólason skrifar
Kafbáturinn er sagður vera gamall kafbátur frá tímum Sovétríkjanna, sem búið er að breyta svo hann geti borið eldflaugar.
Kafbáturinn er sagður vera gamall kafbátur frá tímum Sovétríkjanna, sem búið er að breyta svo hann geti borið eldflaugar. AP/KCNA

Kim Jong Un, einræðisherra Norður Kóreu opinberaði í vikunni nýjan kafbát sem á að geta borið kjarnorkuvopn. Kóreumenn hafa lengi unnið að þróun slíkra kafbáta.

Sjósetning fór fram við formlega athöfn á miðvikudaginn en ríkissjónvarp Norður-Kóreu birti myndir af athöfninni í morgun. Kafbáturinn ber nafn Kim Kun Ok, sem er sögufrægur kóreskur sjóliði.

Yonhap fréttaveitan segir Kim hafa haldið ræðu við sjósetninguna þar sem hann sagði kafbátinn tákna mátt Norður-Kóreu, sem skyti skelk í bringu óvina ríkisins. Kim hefur kallað nútíma- og kjarnorkuvæðingu flota Norður-Kóreu gífurlega mikilvægt skref.

Líklega er þetta sami kafbáturinn og Kim var myndaður við að skoða árið 2019, þegar verið var að smíða hann. Í ræðunni hét Kim því að fleiri kafbátar yrðu smíðaðir í framtíðinni.

Kim fékk hátt eins sjóliða, við mikinn fögnuð annarra.AP/KCNA

Kafbáturinn virðist geta verið búinn tíu eldflaugum, miðað við myndir, en yfirvöld í Norður-Kóreu hafa ekkert sagt um kafbátinn hingað til. Samkvæmt Yonhap er einnig talið að hægt væri að nota kafbátinn til að skjóta kjarnorkutundurskeyti sem kallast Haeil.

Á myndefni sem birt var í Norður-Kóreu má sjá Kim umkringdan flotaforingjum og sjóliðum þegar kafbáturinn var sjósettur.

Herforingjaráð Suður-Kóreu segir að kafbáturinn virðist vera breyttur Sovéskur kafbátur af gerð sem kallaðist Romeo Class á Vesturlöndum og var fyrsti slíki kafbáturinn smíðaður árið 1957. Svo virðist sem honum hafi verið breytt en yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum munu hafa fylgst náið með þeim framkvæmdum.

Talsmaður herforingjaráðsins sagði blaðamönnum að talið væri að kafbáturinn væri ekki í þannig standi að hægt væri að nota hann með eðlilegum hætti.

Frá sjósetningunni á miðvikudaginnAP/KCNA

Tengdar fréttir

Seg­ir að Kim muni gjald­a fyrir vopnasendingar

Jake Sullivan, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, og ríkið allt muni gjalda fyrir mögulega vopnasendingar til Rússlands. Hann segir að sendi Kóreumenn vopn til Rússlands sem notuð yrði í Úkraínu, kæmi það niður á Norður-Kóreu á alþjóðasviðinu.

Mistókst aftur að koma gervihnetti á braut um jörðu

Geimvísindamönnum og verkfræðingum Norður-Kóreu mistókst aftur í dag að koma njósnagervihnetti á braut um jörðu. Gera á þriðju tilraunina í október, samkvæmt yfirvöldum í einræðisríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×