Enski boltinn

María Þórisdóttir frá Man United til Brig­hton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brighton verður þriðja liðið sem María leikur fyrir á Englandi.
Brighton verður þriðja liðið sem María leikur fyrir á Englandi. Brighton & Hove Albion

María Þórisdóttir er gengin í raðir Brighton & Hove Albion frá Manchester United. Ekki kemur fram hvað Brighton borgar fyrir þennan öfluga varnarmann sem hefur einnig leikið með Chelsea.

María, dóttir Þóris Hergeirssonar - þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta, gekk í raðir Man United frá Chelsea árið 2021. Hún hafði leikið með Lundúnaliðinu frá 2017 en þar áður spilaði hún með Klepp í Noregi. 

María tók sér frí frá knattspyrnu frá 2012 til 2014 til að spila í efstu deild handboltans í Noregi en ákvað svo að snúa sér að fótboltanum. Hún var hluti af sigursælu liði Chelsea áður en hún færði sig til Manchester. Nú hefur þessi þrítugi varnarjaxl snúið aftur til Suður-Englands þó ekki komi fram hvað hún skrifi undir langan samning við Brighton.

Melissa Phillips, þjálfari Brighton, er ánægð með að fá reynslubolta eins og Maríu í raðir félagsins.

„Við erum spennt fyrir því að fá tækifæri til að vinna með Maríu og hlökkum til að ná því besta út úr henni. Við vitum að hún er spennt fyrir nýrri áskorun, hennar þekking og nærvera mun nýtast leikmannahópi okkar mjög vel,“ sagði Phillips á vefsíðu félagsins er koma Maríu var kynnt.

María á að baki 66 A-landsleiki fyrir Noreg og á að hjálpa Brighton að taka næsta skref en markmið félagsins er að berjast um fjögur efstu sætin í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×