Innlent

Fjórðungur starfs­manna leik­skólanna menntaðir kennarar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í desember 2022 voru 264 leikskólar starfandi á Íslandi.
Í desember 2022 voru 264 leikskólar starfandi á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Menntaðir kennarar voru 26,6 prósent starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2022. Ófaglært starfsfólk var 57,6 prósent starfsfólks en aðrir höfðu lokið annarri uppeldismenntun.

Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands um háskólamenntun starfsfólks sem starfar við uppeldi og menntun leikskólabarna.

Þar kemur einnig fram að 35 prósent starfsfólks er með grunnpróf á háskólastigi og 12 prósent, eða einn af hverjum átta, með meistaragráðu eða meiri menntun. Rúmur helmingur reyndist með menntun á framhaldsskólastigi eða minni menntun.

„Samsvarandi tölur úr grunnskólum sýna að 63,2% starfsfólks við kennslu í október 2022 voru með grunnpróf á háskólastigi og 31,4% með meistaragráðu eða meiri menntun,“ segir á vef Hagstofunnar.

„Hlutfall starfsfólks leikskóla sem hefur a.m.k. lokið meistaragráðu var hærra á meðal leikskólastjóra (42,1%) en á meðal aðstoðarleikskólastjóra (28,7%) og deildarstjóra og kennara (10,2%). Til að fá leyfisbréf sem kennari til starfa í leikskóla þarf núna að hafa lokið meistaragráðu en eldri leyfisbréf gilda áfram.“

Meira en helmingur 50 ára eða eldri

Starfsmenn leikskólanna voru 7.119 í 6.274 stöðugildum í desember 2022 og hafði fjölgað um 225 frá fyrra ári.

Rúmlega helmingur leikskólakennara, 51,4 prósent, er 50 ára eða eldri en hlutfallið hefur farið ört vaxandi síðustu ár.

„Árið 2004 voru rúm 70% kennara á aldrinum 30-49 ára en hefur fækkað hlutfallslega ár frá ári og voru 46,7% árið 2022. Með lengingu náms leikskólakennara fækkaði kennurum í yngsta aldurshópnum og voru aðeins 2,0% leikskólakennara haustið 2022. Þessar tölur eiga einungis við um kennara sem hafa menntun sem leikskólakennarar, ekki aðra kennara sem starfa í leikskólum,“ segir Hagstofan.

Hlutfall karla meðal starfsmanna var 8,6 prósent í desember 2022 og hefur aldrei verið hærra. Í dag eru þeir 611 en árið 1999 voru þeir 70. Alls eru 264 leikskólar starfandi á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×