Erlent

Börnum bjargað úr kláfi sem festist í þrjú hundruð metra hæð

Samúel Karl Ólason skrifar
Pakistanska þjóðin hefur fylgst náið með björgunaraðgerðum í dag.
Pakistanska þjóðin hefur fylgst náið með björgunaraðgerðum í dag. AP/K.M. Chaudary

Pakistanskir sérsveitarhermenn og aðrir björgunaraðilar hafa bjargað sex börnum og tveimur kennurum úr kláfi sem hangir í um þrjú hundruð metra hæð. Fólkið festist í kláfinum þegar einn kaplanna sem heldur honum uppi slitnaði en hermennirnir björguðu þeim úr þyrlu í mjög erfiðri björgunaraðgerð.

Erfitt hefur verið að komast að kláfinum á þyrlunum og hefur þurft margar tilraunir til að bjarga börnunum. Undir kvöld, þegar birtan minnkaði var brugðið á það ráð að tengja nokkurs konar aparólu við kláfinn og virðist sem hinum hafi varið bjargað þannig.

Það var gert með því að senda menn á litlum kláf eftir kaplinum sem slitnaði ekki og setja upp aparóluna. Hún var svo notuð til að bjarga börnunum og kennurunum.

Umræddur kláfur er í stjrálbýlum norðurhluta Pakistan en samkvæmt frétt BBC má finna heimagerða kláfa víða á svæðinu. Þeir eru oft gerðir úr brotajárni og notaðir til að flytja fólk yfir ár og gljúfur, þar sem aðrar samgönguleiðir eru ekki til staðar.

Slys og dauðsföll sem snúa að kláfum sem þessum eru tíð í Pakistan.

Hér að neðan má sjá tvö myndbönd. Annað sýnir björgun barns með þyrlu í dag og hitt sýnir hvernig einum var bjargað úr kláfinu með aparólunni.

Anwaar ul Haq Kakar er starfandi forsætisráðherra Pakistan. Hann segir sér létt eftir að fólkinu var bjargað og hrósar björgunaraðilum fyrir afrekið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×