Enski boltinn

„Völdu Chelsea af því að þeir finna að eitthvað sérstakt er að fara að gerast“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Moises Caicedo og Romeo Lavia sjást hér komnir í Chelsea búninginn en báðir eiga þeir framtíðina fyrir sér í fótboltanum.
Moises Caicedo og Romeo Lavia sjást hér komnir í Chelsea búninginn en báðir eiga þeir framtíðina fyrir sér í fótboltanum. Getty/Darren Walsh

Chelsea átti góða viku á leikmannamarkaðnum og kom um leið höggi á Liverpool sem sat eftir tómhent eftir að tveir öflugir leikmenn völdu frekar Chelsea.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, talaði um nýju leikmennina á blaðamannafundi í dag.

Chelsea eyddi 173 milljónum punda í þá Moises Caicedo og Romeo Lavia sem báðir vildu frekar fara til Chelsea en til Liverpool. Liverpool sat eftir með sárt ennið í eltingarleiknum við þá báða þrátt fyrir að hafa komist að samkomulagi um kaupverð.

Ekvadorinn Caicedo kemur frá Brighton & Hove Albion en Belginn Lavia frá Southampton.

„Þetta var val leikmannanna sjálfra. Það var þeirra ákvörðun að koma frekar hringað,“ sagði Mauricio Pochettino á blaðamannafundinum og það var ekki að heyra annað en að hann vildi skjóta aðeins á vinnubrögð forráðamanna Liverpool.

„Þetta var engin keppni því leikmennirnir vildu frekar koma til Chelsea. Það gerir okkur mjög ánægða en þeir tala líka mjög vel um eigendurna okkar og íþróttastjórana. Þeir hrósa sérstaklega þeirra vinnubrögðum,“ sagði Pochettino.

Liverpool reyndi að stela Caicedo af Chelsea og missti síðan af Lavia sem var ekki hrifinn að vera settur til hliðar.

„Leikmennirnir völdu Chelsea af því að þeir finna að eitthvað sérstakt er að fara að gerast hér. Ég vona að þeim muni finnast þetta sérstakt,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×