Umfjöllun, viðtöl og myndir: Breiða­blik - Zri­njski 1-0 | Góður sigur Blika dugði skammt

Andri Már Eggertsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni í leik kvöldsins
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann 1-0 sigur á Zrinjski frá Bosníu þegar liðin mættust í kvöld á Kópavogsvelli í undankeppni Evrópudeildarinnar. Zrinjski vann þó einvígið 6-3 og fer áfram í umspil en Blikar fara í umspil Sambandsdeildarinnar.

Það var á brattan að sækja hjá Blikum fyrir leikinn í kvöld eftir 6-2 tap í Bosníu. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en í síðari hálfleik kom eina mark leiksins. Slobodan Jakovljevic skoraði þá sjálfsmark eftir fyrirgjöf Davíðs Ingvarssonar.

Damir var á sínum stað í vörninni Vísir/Hulda Margrét

Lokatölur 1-0 og Blikar fara nú í einvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og mæta þar  liði FK Struga frá Makedóníu. Fyrri leikur liðanna fer fram í Albaníu eftir viku en sá síðari á Kópavogsvelli viku síðar.

Það gerðist lítið fyrstu tuttugu mínúturnar. Breiðablik hélt betur í boltann en skapaði sér lítið á síðasta þriðjungi. Gestirnir fengu gott færi til þess að brjóta ísinn en Brynjar Atli Bragason sem var í markinu í stað Antons Ara Einarssonar lokaði á Tomislav Kis sem var við það að sleppa í gegn.

Gísli Eyjólfsson fékk færi í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Gísli Eyjólfsson fékk einu færi Blika í fyrri hálfleik. Fyrst átti hann skot rétt fyrir utan teig sem fór vel yfir markið. Síðan fékk Breiðablik hornspyrnu þar sem Kristinn Steindórsson var tekinn niður en ekkert dæmt. Þaðan barst boltinn til Gísla sem átti aftur skot hátt yfir markið.

Fleira gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan var markalaus í hálfleik 0-0.

Jason Daði Svanþórsson var líflegur í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Líkt og í fyrri leiknum kom Klæmint Olsen inn á í hálfleik. Þrátt fyrir að hafa komið að báðum mörkum Blika úti í Bosníu þurfti Klæmint að byrja á bekknum.

Það dróg til tíðinda á 57. mínútu þegar Breiðablik komst yfir. Davíð Ingvarsson átti fyrirgjöf sem Slobodan Jakovljevic tæklaði og setti boltann í eigið net. Tveimur mínútum síðar tók Höskuldur hornspyrnu sem Klæmint skallaði í stöngina.

Fleiri urðu mörkin ekki og Breiðablik vann 1-0 sigur. 

Gísli Eyjólfsson fagnar marki BlikaVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Breiðablik?

Það var allt annað að sjá Breiðablik í kvöld heldur en í fyrri leik liðanna. Breiðablik hélt töluvert betur í boltann en Zrinjski og skapaði sér fleiri færi. 

Eina mark leiksins var sjálfsmark og Klæmint Olsen var nálægt því að bæta við öðru marki tveimur mínútum síðar þegar hann átti skalla í stöngina.

Hverjir stóðu upp úr?

Jason Daði Svanþórsson var líflegur á hægri kantinum þar sem hann var ógnandi og skapaði flest færi sem Breiðablik fékk. 

Brynjar Atli Bragason var í markinu í stað Antons Ara Einarssonar og stóð vaktina vel. Brynjar gerði vel þegar gestirnir fengu dauðafæri í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Gestirnir frá Bosníu sköpuðu sér afar fá færi. Tomislav Kis fékk dauðafæri í fyrri hálfleik sem hann nýtti ekki. 

Gísli Eyjólfsson var duglegur að koma sér í færi en Gísli átti þrjú skot sem fóru öll vel yfir markið. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik mætir Keflavík á heimavelli næsta sunnudag klukkan 18:00.

Óskar Hrafn: Það voru ekki mistök að byrja með Klæmint á bekknum

Óskar Hrafn Þorvaldsson á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

„Ég er mjög sáttur með frammistöðuna í leiknum og ég talaði um það fyrir leik að frammistaðan væri það sem skipti mestu máli og við fengum öfluga frammistöðu og mér fannst við gera nóg til að skora fleiri mörk,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson eftir leik.

Óskar hrósaði Klæmint sem kom inn á í hálfleik en af hverju byrjaði hann ekki inn á?

„Ég held að það hafi ekki verið mistök að byrja með hann á bekknum. Hann hefur verið öflugur að koma inn á með krafti og það hentaði vel í dag en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Hefði hann byrjað þá hefði mögulega Kristinn Steindórsson ekki verið inn á en þetta eru hlutir sem er tilgangslaust að hugsa um.“

Þetta var fyrsti sigur Breiðabliks síðan 21. júlí en hvað mun þessi sigur gefa Breiðabliki í framhaldinu?

„Frammistaðan gefur okkur kraft og aukna trú. Merkilegt að þú skulir nefna einhverjar dagsetningar en sigurinn gefur okkur trú,“ sagði Óskar Hrafn eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira