Sport

Brynjar Atli: Þakklátur að hafa fengið tækifæri

Andri Már Eggertsson skrifar
Brynjar Atli Bragason var í marki Breiðabliks í kvöld
Brynjar Atli Bragason var í marki Breiðabliks í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Brynjar Atli Bragason stóð í marki Breiðabliks í kvöld. Blikar unnu 1-0 sigur gegn Zrinjski Mostar en tapa einvíginu samanlagt 6-3.

„Okkar markmið er að klára þetta í næstu umferð. Við byggjum ofan á frammistöðuna þar sem mér fannst við sýna góða frammistöðu að einhverju leiti.“

„Mér fannst fyrri hálfleikur hægur hjá okkur og við sköpuðum okkur færi sem var rangstæða. Ég hefði viljað vinna þetta stærra en það er bara næsta verkefni,“ sagði Brynjar Atli Bragason eftir leik.

Brynjar gaf lítið fyrir það að Breiðablik hafi komist aftur á sigurbraut og sagði að liðið hafi ekki látið tapið út í Bosníu brjóta sig niður.

„Við vorum ekki að stressa okkur á þessu tapi úti í Bosníu. Við höfum lent í allskonar töpum og sigrum og það er bara næsta einvígi, við ætlum ekki að pæla of mikið í þessu.“

Það kom á óvart að Brynjar Atli væri í markinu í stað Antons Ara í kvöld og hann var þakklátur fyrir tækifærið.

„Það er fyrst og fremst þakklæti fyrir að hafa fengið að byrja leikinn og tilheyra þessum hóp. Ég er þakklátur Óskari að treysta mér fyrir þessu. Við erum með mismunandi styrkleika og við virðum það báðir. Ég held að þessi leikur hafi hentað mér betur en ég er fyrst og fremst þakklátur að hafa fengið að tilheyra hópnum.“

En gerir Brynjar kröfu um að byrja í næstu verkefnum?

„Ég set ekki kröfu á það og ég virði ákvörðunina sem Óskar Hrafn tekur og ég treysti honum fullkomlega fyrir því að velja rétta liðið og hvort sem það verður ég,“ sagði Brynjar Atli Bragason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×