Erlent

Rýma fjögur þorp á Tenerife vegna gróður­elda

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Myndir frá Tenerife sem sýna annars vegar reykinn úr fjarska og hins vegar eldhafið gleypa skóg úr meiri nálægð.
Myndir frá Tenerife sem sýna annars vegar reykinn úr fjarska og hins vegar eldhafið gleypa skóg úr meiri nálægð. Twitter

Spænsk yfirvöld hafa skipað rýmingu fjögurra þorpa á eyjunni Tenerife eftir að gróðureldur kviknaði í þjóðgarðinum í kringum Teide-fjall.

Eldurinn kviknaði á miðnætti á þriðjudagskvöld og dreifði hratt úr sér í gegnum skógi vaxið svæðið ofan í djúp gljúfur í norðausturhluta eyjunnar sem gerði slökkviliðsmönnum mjög erfitt fyrir. 

Talið er að um 150 hektarar lands (um 1,5 ferkílómetri) hafi þegar orðið eldinum að bráð.

 Um 150 slökkviliðsmenn á landi og tíu úr lofti vinna nú við að slökkva eldinn. Þá hafa íbúar þorpanna Arrate, Chivisaya, Media Montaña og Ajafona hafa verið fluttir á brott vegna eldsins og búið er að loka tveimur hraðbrautum á eyjunni.

Erfitt að komast að eldinum

„Eldhafið gæti náð gríðarlegri stærð, við höfum óskað eftir meiri hjálp,“ sagði Rosa Davila, forseti sveitarstjórnar Tenerife. „Þetta hefur aðallega áhrif á Corona-skóg, það er mikið af furutrjám og skógi. Það er bratt svæði og loftför eru nauðsynleg,“ sagði hún.

Kanaríeyjar hafa orðið fyrir barðinu á kröftugri hitabylgju undanfarna viku sem hefur þurrkað upp gróður á eyjunni og aukið hættuna á gróðureldum. 

Fleiri lönd hafa lent í hitabylgjunni enda hefur sumarið verið eitt það heitasta frá upphafi mælinga. Þá eru rúmlega hundrað látnir eftir hræðilega gróðurelda sem hafa geisað á eyjunni Maui í Hawaii.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×