Innlent

Af­lýsa hættu­stigi vegna gossins við Litla-Hrút

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldgosinu við fjallið Litla-Hrút er lokið.
Eldgosinu við fjallið Litla-Hrút er lokið. Vísir/Ívar

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að færa hættustig almannavarna vegna eldgossins sem hófst við Litla-Hrút niður á óvissustig.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en ekki hefur mælst gosórói á svæðinu frá 5. ágúst og engin yfirborðsvirkni sjáanleg í gígum. Nú er óvissustig almannavarna í gildi bæði vegna eldgossins við Litla-Hrút og landriss í Öskju.

Bannsvæði áfram í gildi

Á þriðjudag aflétti lögreglustjórinn á Suðurnesjum daglegum lokunum við eldstöðvarnar en gönguleiðum var lengi vel lokað á kvöldin og næturnar. Áfram er almenningi þó óheimilt að fara inn á hættusvæði sem afmörkuð hafa verið af lögreglu í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Veðurstofan vinnur nú að endurskoðun hættusvæðisins, að sögn samskiptastjóra almannavarna. 

Eldgosið við Litla-Hrút hófst 10. júlí og lýsti Veðurstofan yfir goshléi þann 5. ágúst eftir að gosórói hætti að mælast á svæðinu. Á þeim tímapunkti hafði dregið hratt úr hraunflæði gossins og var tímasetning gosloka í samræmi við spár vísindamanna. 

Hættusvæðið merkt á meðfylgjandi korti er áfram bannsvæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.Lögreglan

Eldsumbrotin drógu að mikinn fjölda manns á þeim tæplega fjórum vikum sem þau stóðu yfir og vöktu heimsathygli. Var um að ræða mikið sjónarspil líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði sem Björn Steinbekk tók á síðasta degi júlímánaðar, einungis nokkrum dögum fyrir goslok.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Við­bragðs­aðilar taka gos­hléi fagnandi

Erfiðlega gengur að manna vaktir bæði hjá lögreglu og björgunarsveitum þessa dagana á eldgosasvæðinu á Reykjanesskaga. Að sögn yfirlögregluþjóns hefur goshlé ekki mikil áhrif á störf viðbragðsaðila á svæðinu sem þó hafi komið á besta tíma. 

Lýsa yfir goshléi

Eldgosinu við Litla-Hrút er lokið, allavega í bili.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×