Erlent

Valda­ræningjarnir í Níger hafna við­ræðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmenn herforingjastjórnarinnar í Níger veifa rússneskum fána. Vangaveltur hafa verið uppi um að stjórnin gæti óskað eftir liðsauka rússneska málaliðahersins Wagner-hópsins.
Stuðningsmenn herforingjastjórnarinnar í Níger veifa rússneskum fána. Vangaveltur hafa verið uppi um að stjórnin gæti óskað eftir liðsauka rússneska málaliðahersins Wagner-hópsins. AP/Sam Mednick

Herforingjastjórnin sem rændi völdum í Níger fyrir tveimur vikum meinaði alþjóðlegu teymi samningamanna að koma til landsins í gær. Hún virðist stefna að því að festa völd sín í sessi, meðal annars með því að tilnefna ráðherra í ríkisstjórn.

Samninganefndir frá Sameinuðu þjóðunum, Afríkubandalaginu og Efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) ætluðu til Níger til þess að reyna að miðla málum í gær. Herforingjastjórnin synjaði þeim hins vegar um leyfi fyrir því að koma og vísaði til öryggisástæðna.

Nágrannaríkin í ECOWAS hafa krafist þess að herforingjastjórnin skili völdunum aftur til Bazoum forseta sem hún steypti af stóli og er með í haldi. Hótuðu þau að beita hervaldi ef herforingjastjórnin gerði það ekki fyrir síðasta sunnudag. Bandalagið er þó klofið þar sem Malí og Búrkína Fasó, sem bæði eru undir herforingjastjórnum, standa með valdaræningjunum og segja að árás á Níger yrði árás á þau.

Eftir að samninganefndunum var vísað frá sagðist ECOWAS í yfirlýsingu leita friðsamlegrar lausnar og gera allt sem í valdi þess stæði til þess að koma aftur á lögmætu stjórnarfari í Níger. Bandalagið ætlar að funda um málefni Nígers í Abuja í Nígeríu á morgun.

Valdaræningjarnir tóku dræmt í umleitanir Victoriu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að þeir tækju þátt í viðræðum um friðsama lausn á ástandinu og kæmu aftur á réttarríki þegar hún fundaði með þeim á mánudag.

Fyrrverandi ráðherra gerður forsætisráðherra

Herforingjastjórnin skipaði Ali Mahaman Lamine Zeine, hagfræðing og fyrrverandi efnahags- og fjármálaráðherra, sem forsætisráðherra á mánudag. Fleiri ráðherrar hafa verið tilnefndir í ríkisstjórn. Zeine þessi var hluti af ríkisstjórn sem var steypt af stóli í öðru valdaráni hersins árið 2010.

„Myndun ríkisstjórnar er þýðingarmikil og sendir að minnsta kosti þjóðinni þau skilaboð að þeir séu með áætlun og stuðning frá ríkisstjórninni,“ segir Aneliese Bernard, sérfræðingur í málefnum Afríku frá ráðgjafarstofnuninni Strategic Stabilization Advisors, við AP-fréttastofuna.


Tengdar fréttir

Sakar Wagner-hópinn um að not­færa sér á­standið í Níger

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna telur að rússneski málaliðahópurinn Wagner notfæri sér nú óstöðugleikann í Níger í kjölfar valdaráns herforingja þar í síðasta mánuði. Vangaveltur eru uppi um að valdaræningjarnir hafi falast eftir aðstoð málaliðahersins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×