Enski boltinn

Höfnuðu þriðja tilboði Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romeo Lavia kom ekki við sögu í leik Southampton og Sheffield Wednesday í ensku b-deildinni um helgina.
Romeo Lavia kom ekki við sögu í leik Southampton og Sheffield Wednesday í ensku b-deildinni um helgina. Getty/George Wood

Southampton hefur hafnað þriðja tilboði Liverpool í belgíska miðjumanninn Romeo Lavia.

Liverpool hefur mikinn áhuga á þessum nítján ára leikmanni sem er ætlað að að fylla í stór skörð sem hafa verið skilinn eftir í hópi miðjumanna liðsins.

Nýjasta tilboð Liverpool var sagt vera í kringum 46 milljónir punda með bónusum en Southampton vill fá fimmtíu milljónir punda fyrir Romeo Lavia.

Lavia kom ekki við sögu í fyrsta leik Southampton í ensku b-deildinni um helgina þegar liðið vann 2-1 sigur á Sheffield Wednesday.

Southampton keypti Lavia frá Manchester City síðasta sumar fyrir 10,5 milljónir punda.

Hann spilaði 34 leiki í öllum keppnum á síðustu leiktíð en liðið féll þá úr ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool þarf að styrkja sig á miðjunni ekki síst í stöðu varnartengiliðs en í sumar hefur félagið misst þá Fabinho, Jordan Henderson, James Milner, Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain.

Liverpool hefur þegat keypt miðjumennina Alexis Mac Allister og Dominik Szoboszlai í sumar og eytt í þá samtals 95 milljónum punda. Mac Allister er fjölhæfur leikmaður getur leyst stöðu afturliggjandi miðjumanns sem hann gerði í æfingarleik í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×