Enski boltinn

Bayern ekki hættir þó lokatilboðinu hafi verið hafnað

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Framtíðin nú ráðin?
Framtíðin nú ráðin? vísir/getty

Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham hefur engan áhuga á því að selja ofurstjörnuna sína; enska sóknarmanninn Harry Kane þrátt fyrir gylliboð Bayern Munchen.

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Tottenham hafi loks svarað því sem forráðamenn Bayern Munchen kölluðu lokatilboð í Kane og hafi svarað því neitandi.

Tilboðið var upp á rúmlega 100 milljónir punda, að því er heimildir herma, en mjög stirt hefur verið á milli forráðamanna Bayern og Tottenham í viðræðunum í sumar.

Þrátt fyrir að hafa sett tilboðið upp sem lokatilboð er talið að Bæjarar hafi ekki sagt sitt síðasta og muni halda áfram að bjóða í Kane á næstu dögum.

Kane hefur sjálfur ekkert tjáð sig opinberlega um framtíð sína en það var ekki að sjá á honum fararsnið þegar hann skoraði fjögur mörk í 5-1 sigri liðsins á Shakhtar í gær og sendi svo skilaboð til stuðningsmanna Tottenham á Twitter reikningi sínum í kjölfarið.

Tottenham hefur leik í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi sunnudag þegar liðið heimsækir Brentford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×