Enski boltinn

Furða sig á lengri uppbótartíma á Englandi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Átta mínútum var bætt við leik Man City og Arsenal og skoraði Arsenal jöfnunarmark á 90+11.
Átta mínútum var bætt við leik Man City og Arsenal og skoraði Arsenal jöfnunarmark á 90+11. vísir/Getty

Knattspyrnustjórum á Englandi var tíðrætt um nýjar reglur varðandi uppbótartíma þegar fyrsta stóra helgina í enska fótboltanum fór fram um helgina og sitt sýnist hverjum.

Í sumar var tekin ákvörðun um breyttar áherslur er snýr að uppbótartíma líkt og notast var við á heimsmeistaramótinu, bæði á HM karla í Katar í desember og á HM kvenna sem er nú í gangi í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Neðri deildirnar í enska boltanum fóru af stað um helgina auk þess sem Man City og Arsenal áttust við í Samfélagsskildinum en þar skoraði Arsenal jöfnunarmark eftir 101 mínútu.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að venjast. Mér fannst ekki það mikið gerast í leiknum að uppbótartíminn ætti að vera 8 mínútur. Þið verðið að spyrja fólkið sem ákvað þetta. Það var ekkert talað við okkur né leikmennina,“ sagði Pep Guardiola, stjóri Man City í leikslok.

„Hugsaðu þér ef leikir fara 4-3 og það er bætt við 30-45 sekúndum fyrir hvert mark. Við yrðum enn að spila hérna klukkan níu í fyrramálið,“ sagði Pep.

Margir leikir í neðri deildunum fóru yfir 100 mínútur og Tony Mowbray, stjóri Sunderland, var einn þeirra stjóra sem furðaði sig á uppbótartímanum en þrettán mínútum var bætt við leik Ipswich og Sunderland.

„Hvað um uppbótartímann við uppbótartímann? Við spilum 45 mínútna hálfleik og við bætast 13 mínútur. Á þessum 13 mínútum voru þrjár skiptingar, höfuðmeiðsli og einn fékk krampa. Hvað á að bæta mörgum mínútum við fyrir það?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×