Erlent

Lík móður og barns fundust og þrjá­tíu enn saknað eftir að tveir bátar sukku

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Meira en tvö þúsund farandmenn hafa siglt frá Norður-Afríku til eyjunnar Lampedusa síðustu daga.
Meira en tvö þúsund farandmenn hafa siglt frá Norður-Afríku til eyjunnar Lampedusa síðustu daga. EPA

Lík móður og barns hafa fundist eftir að tveir bátar sukku vegna mikils hvassviðris út af ströndum Ítölsku eyjunnar Lampedusa í nótt. Talið er að þrjátíu manns sé enn saknað.

Samkvæmt upplýsingum frá ítölsku landhelgisgæslunni höfðu bátarnir siglt frá borginni Sfax í Túnis. Fimmtíu og sjö farþegum hefur verið bjargað en talið er að stór hluti þeirra séu farandmenn frá Afríku sunnan Sahara. Samkvæmt ítölskum miðlum var barnið sem fannst látið einungis átján mánaða gamalt.

Eftirlifendum var bjargað fjörutíu kílómetrum suðvestan af Lampedusa, sem er algengur viðkomustaður farandfólks sem siglir frá Norður-Afríku til Evrópu. 

Tuttugu strandaglópum var að auki bjargað eftir að hafa hírst tvo daga á skeri utan eyjunnar eftir að bátur þeirra rak að honum á föstudag. Fresta þurfti björgunaraðgerðum vegna mikilla vinda á svæðinu.

Samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneyti Ítalíu hafa 78 þúsund farandmenn numið land á Ítalíu eftir að hafa siglt þangað frá Norður-Afríku, það sem af er ári, tvöfalt meira en á sama tímabili í fyrra. 

Stærstur hluti þeirra siglir frá Túnis, þar sem Evrópusambandið skrifaði í síðasta mánuði undir samning upp á 145 milljarða króna til þess að sporna gegn ólögmætum fólksflutningum milli landanna. Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, átti stóran hlut í gerð samningsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×