Fótbolti

Southgate útilokar ekki að velja leikmenn sem spila í Sádi Arabíu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gareth Southgate.
Gareth Southgate. vísir/getty

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að það væri heimskulegt að útiloka leikmenn frá enska landsliðinu kjósi þeir að spila í Sádi Arabíu.

Enski miðjumaðurinn Jordan Henderson, sem hefur verið fyrirliði Liverpool undanfarin ár og fastamaður í enska landsliðinu, gekk á dögunum til liðs við Al Ettifaq í Sádi Arabíu.

Í gegnum tíðina hafa leikmenn farið til Mið-Austurlanda á efri árum ferils síns eftir að hafa gert það gott í evrópskum fótbolta og hafa margir efast um að leikmenn geti haldið áfram að spila með landsliðum í Evrópu í hæsta gæðaflokki á sama tíma og menn spila í deildum sem eru lægra skrifaðar en þær evrópsku.

Southgate segist ekki útiloka það að Henderson, og aðrir enskir leikmenn, geti haldið áfram að spila með enska landsliðinu þó þeir spili í Sádi Arabíu.

„Það væri heimskulegt að gera það. Afhverju ættum við að útiloka einhvern vegna þess hvar hann spilar? Við þurfum að sjá hvernig þeir spila,“ segir Southgate.

„Við höfum einhverja hugmynd um hvernig deildin hjá þeim mun virka en við getum ekki vitað það fyrr en við sjáum deildina fara af stað.“

Beðið er með mikilli eftirvæntingu eftir því að deildin í Sádi Arabíu hefjist um næstu helgi en margir öflugir leikmenn hafa fetað í fótspor Cristiano Ronaldo í sumar og samið við sádi arabísk lið. 

Ber þar helsta að nefna Karim Benzema, Sadio Mane, Sergej Milinkovic-Savic, N´Golo Kante, Ruben Neves og Marcelo Brozovic svo einhverjir séu nefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×