Innlent

„Þurfum engu að kvíða þó það blotni að­eins“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Siggi stormur segir Þjóðhátíðargesti ekki þurfa að kippa sér upp við smá úrkomu. Sólin kíki líka til Eyja.
Siggi stormur segir Þjóðhátíðargesti ekki þurfa að kippa sér upp við smá úrkomu. Sólin kíki líka til Eyja. Vísir/Elísabet Hanna

Það skiptast á skin og skúrir um verslunarmannahelgina ef spár ganga eftir. Veðurfræðingur segir að besta veðrið verði líklegast á austanverðu landinu í byrjun helgar en á sunnudeginum verði prýðis veður um land allt. 

„Það verða bæði skin og skúrir, það er óhætt að segja það. Þetta kemur þannig út að á föstudag fer úrkoma heldur vaxandi í formi skúra sem geta fallið einkum vestan til á landinu en þó gæti það teygt sig hér og þar um landið, þó síst fyrir austan,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, Siggi stormur.

Mun betra veður á sunnudeginum

Hann segir að úrkoman fari vaxandi og verði í meginatriðum á laugardeginum þegar horfur séu á rigningu með köflum, um sunnan- og vestanvert landið, ef ekki víðar.

Siggi stormur fer yfir verslunarmannahelgarveðrið.Vísir/Vilhelm

„Það góða sem gerist í þessu er að á sunnudeginum styttir upp og við tekur mun betra veður. Sólin sýnir sig hér og hvar um landið, þannig fólk á þjóðhátíð ætti ekki að kvíða því þó það blotni aðeins í þessu á laugardeginum því á sunnudeginum verður orðið mun betra veður.“

Hjónabönd hafi orðið til undir regnhlífinni

Hann ítrekar að rigningunni fylgi enginn hvellur.

„Þetta er regnhlífaveður, það er alveg hægt að vera með regnhlíf og menn mega ekki gleyma því að það hafa orðið til pör og jafnvel hjónabönd úr því að vera saman undir regnhlífinni þannig það gæti verið sjarmerandi líka.“

Sigurður segir að besta veðrið verði á austanverðu landinu í byrjun helgar.

„Síðan strax á sunnudeginum þá verður komið prýðisveður um allt land þannig ég held að af því að það er hægur vindur í þessu og hitinn um átta til sextán stig og hlýjast væntanlega sunnan heiða, að þá held ég að við þurfum engu að kvíða þó það blotni aðeins.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×