Enski boltinn

Segja að Kane vilji sjálfur borga upp samninginn við Spurs til að geta komist til Bayern

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óvissa ríkir um framtíð Harrys Kane hjá Tottenham.
Óvissa ríkir um framtíð Harrys Kane hjá Tottenham. getty/Suhaimi Abdullah

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, ku vera tilbúinn að borga sjálfur upp samning sinn við Tottenham til að losna frá félaginu og geta komist til Bayern München.

Kane hefur verið sterklega orðaður við Bayern í allt sumar en hingað til hefur Spurs ekki viljað selja markahæsta leikmanninn í sögu félagsins. Öllum þremur tilboðum Bæjara í Kane hefur verið hafnað.

Samkvæmt fréttum í Þýskalandi, meðal annars hjá Bild, vill Kane ólmur komast til Bayern og til þess að það verði að veruleika er hann tilbúinn að borga upp síðasta árið af samningi sínum við Spurs.

Kane myndi þá afsala sér stórum hluta launa sinna hjá Tottenham en talið er að hann sé með 20,6 milljónir punda í árslaun hjá félaginu.

Bild bendir á að Thiago, núverandi leikmaður Liverpool og fyrrverandi leikmaður Bayern, og Julian Nagelsmann, fyrrverandi knattspyrnustjóri Bayern, hafi gripið til svipaðra aðgerða. Þá segir Bild að Bayern gæti bætt Kane upp þann fjárhagslega skaða sem hann verður fyrir ef hann kaupir upp samning sinn við Spurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×