Innlent

Auka við­veru ís­lenskra stjórnar­erind­reka í Kænu­garði

Eiður Þór Árnason skrifar
Sendiráð Litáa í Kænugarði þar sem fulltrúar Íslands munu hafa aðstöðu.
Sendiráð Litáa í Kænugarði þar sem fulltrúar Íslands munu hafa aðstöðu. Stjórnarráðið

Íslensk stjórnvöld stefna að því að auka viðveru sína í Úkraínu og hafa gert samkomulag við utanríkisráðuneyti Litáens um að íslenskir stjórnarerindrekar fái vinnuaðstöðu í sendiráði Litáens í Kænugarði.

Þetta er sagt liður í þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að sýna úkraínsku þjóðinni samstöðu eftir innrás Rússa. Starfsemi í sendiráði Íslands í Rússlandi var lögð niður í gær

Sem hluti af samkomulaginu fá fulltrúar íslenska ríkisins tryggan aðgang að aðstöðu í höfuðborg Úkraínu til að sinna störfum í landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu en engar fjárhagslegar skuldbindingar eru sagðar fylgja samkomulaginu. Hannes Heimisson sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu afhenti Volodymyr Zelensky, forseta landsins, nýverið trúnaðarbréf sitt.

Stefna ekki að opnun sendiráðs í Úkraínu

„Litáen er ein nánasta vinaþjóð Íslands og samvinna landanna hefur dýpkað jafnt og þétt. Um leið gerum við ráð fyrir að samskipti okkar við Úkraínu eigi eftir að aukast enn frekar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ekki standi til að opna sendiskrifstofu í Kænugarði eins og sakir standa en vonast ráðherrann með þessu að hægt verði að styrkja sambandið við úkraínsk stjórnvöld og sýna þjóðinni samstöðu. Á sama tíma geti fulltrúar Íslands sótt í þá þekkingu og reynslu sem Litáar og aðrar vinaþjóðir Íslands hafi varðandi svæðið. Úkraína er eitt af umdæmisríkjum sendiráðs Íslands í Varsjá í Póllandi þar sem Hannes Heimisson er sendiherra.

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, segir í tilkynningu að samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hafi eflst á undanförnum árum.

„Á sameiginlegum fundi í Kænugarði kölluðum við, ásamt utanríkisráðherra Íslands og annarra norrænna þjóða, eftir auknum aðgerðum bandalagsþjóða við Atlantshafið, til að flýta fyrir sigri Úkraínumanna. Eins og staðan er núna er þétt samstaða Íslands og Litáen ekki aðeins táknræn heldur raunveruleg.“


Tengdar fréttir

Starfsemi sendiráðsins lögð niður í dag

Starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu verður lögð niður í dag. Verkefni ráðuneytisins, sem hefur einnig verið með fyrirsvar gagnvart Armeníu, Belarús, Kasakstan, Kirgistan, Moldóvu, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan færast yfir á utanríkisráðuneytið.

Sendi­herrann pakkar saman og kveður Moskvu

Árni Þór Sigurðsson, sem gegnt hefur embætti sendiherra Íslands í Moskvu síðustu misserin, hefur tekið saman föggur sínar og kvatt rússnesku höfuðborgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×