Erlent

Mexí­kóskt fylki bannar söng­texta sem inni­halda kven­fyrir­litningu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögin gætu haft áhrif á framkomu púertóríkóska tónlistarmannsins Bad Bunny í fylkinu, en hann er einn af vinsælustu tónlistarmönnum Mexíkó.
Lögin gætu haft áhrif á framkomu púertóríkóska tónlistarmannsins Bad Bunny í fylkinu, en hann er einn af vinsælustu tónlistarmönnum Mexíkó. AP

Yfirvöld í Chihuahua-fylki í Norðvestur-Mexíkó hafa bannað lifandi flutning tónlistarmanna á söngtextum sem hvetja til ofbeldis gagnvart konum.

Í frétt The Guardian segir að nú geti tónlistarfólk hlotið sektir upp á meira en níu milljónir króna fyrir að flytja lög í fylkinu þar sem textinn eflir til ofbeldis gegn konum. 

Patricia Ulate, borgarfulltrúi í Chihuahua-borg, segir mikla ofbeldismenningu ríkja og allar aðgerðir til þess að sporna gegn kynbundu ofbeldi telji. Tilkynningum um heimilisofbeldi í Chihuahua-borg hafi fjölgað hratt nýverið. 

Þá komi peningurinn sem safnast við sektanirnar til með að renna til stofnana sem styðja við konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi.

Ofbeldisfaraldur í Chihuahua-borg

Marco Bonilla, borgarstjóri Chihuahua-borgar, segir að ofbeldisfaraldur standi nú yfir í borginni. Að sjö af hverjum tíu símtölum sem berast lögreglunni í borginni tengist heimilisofbeldi. 

Hann segir lifandi flutning á tónlist sem hlutgeri konur teljist til ofbeldis. 

Lögin ógni frelsi

Bannið gæti haft talsverð áhrif á tónleikahald í fylkinu. Til að mynda eru líkur á að tónlistarmönnunum Bad Bunny og Peso Pluma, sem eru meðal þeirra vinsælustu í landinu um þessar mundir, verði ekki heimilt að flytja tónleika í fylkinu sökum kvenfyrirlitningar í söngtextum þeirra.

Ekki er einróma fögnuður yfir nýju lögunum en Fransisco Sánchez, þingmaður Chihuahua fylkis sagði lögin gagnslaus og gamaldags, auk þess sem þau ógni frelsi og fari gegn stjórnarskrá Mexíkó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×