Innlent

Eldur kviknaði hjá Geymslu­­svæðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna elds í Hafnarfirði í gær.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna elds í Hafnarfirði í gær. Vísir/Vilhelm

Eldur kviknaði í rusli utandyra í Hafnarfirði í gærkvöldi. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en svartan reyk lagði yfir hluta bæjarins.

Eldurinn logaði við atvinnuhúsnæði Geymslusvæðisins ehf. við Kapelluhraun, skammt frá álveri Rio Tinto í Straumsvík. Mbl.is greindi fyrst frá.

„Þetta var bara eitthvað rusl sem hafði verið kveikt í sennilega en það kom góður reykur af þessu og sást vel yfir Hafnarfirði,“ segir Gunnlaugur Jónsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu. Eldurinn hafi sem betur fer ekki verið nálægt neinu sem hann gat borist í. 

Allar stöðvar voru sendar á vettvang þegar tilkynning barst en öllum snúið við nema einni þegar fyrsti bíll kom á staðinn og ljóst var um umfangið. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og hefur helgin almennt verið fremur róleg hjá slökkviliðinu.

„Það hefur verið stórslysalaus helgin hjá okkur yfirhöfuð en fullt af svona smáverkefnum með umferðarslysum og minniháttar árekstrum eitthvað,“ segir Gunnlaugur. Lítið hafi verið um eldsvoða.

„Við höfum sloppið með það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×