Erlent

„Við munum hvorki gleyma né fyrir­gefa neitt af þessu“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Selenskí segir úkraínsku þjóðina hvorki munu gleyma öllu því sem Rússar hafa gert, né heldur muni hún fyrirgefa það.
Selenskí segir úkraínsku þjóðina hvorki munu gleyma öllu því sem Rússar hafa gert, né heldur muni hún fyrirgefa það. Skrifstofa forseta Úkraínu

Rússar segjast hafa eyðilagt hernaðarlega mikilvæga stjórnstöð í úkraínsku borginni Dnipro í gær. Níu særðust í eldflaugaárásum á borgina, þar af tvö börn. Forseti Úkraínu gerir allt hvað hann getur til að hvetja þjóð sína til dáða í stríðinu.

Igor Konasjenkov, varnarmálaráðherra Rússa, greindi frá því í daglegu upplýsingaávarpi í morgun að Rússum hefði í gær tekist að eyðileggja stjórnstöðina með skipulagðri eldflaugaárás á borgina, sem er í austurhluta Úkraínu.

Úkraínumenn segja á hinn bóginn að eldflaugar Rússa hafi lent á íbúðablokk, og gereyðilagt efstu hæðina. Níu almennir borgarar hafi særst í árásinni, þar af tvö börnb á táningsaldri. Þá hafi eldflaug einnig hæft nærliggjandi tóma byggingu í eigu úkraínsku leyniþjónustunnar.

Selenskí ferðast um landið

Volodímír Selenskí Úkraínuforseti ávarpaði þjóð sína í dag og sagði Rússa munu fá að gjalda fyrir hverja árás sem þeir fremja.

„Vinnu eftir eldflaugaárás gærdagsins var lokið strax í morgun. Níu særðust, þar á meðal tvö börn og unglingar. Allir fengu nauðsynlega hjálp. Fyrir hverja slíka árás, fyrir öll hryðjuverk Rússa, mun óvinurinn sannarlega finna fyrir mætti réttlætisins. Við munum hvorki gleyma né fyrirgefa neitt af þessu,“ sagði Selenskí í myndbandsávarpi sem hann sendi frá sér í dag.

Selenskí heimsótti í dag úkraínska sérsveitarhermenn í Bakmút í austurhluta Úkraínu, þar sem hart hefur verið barist að undanförnu. Þar sagði hann hvern einasta hermann úr hópi þeirra vera hetjur, og að fólk gerði sér ekki grein fyrir þeim hetjudáðum sem þeir drýgðu og þeim fórnum sem þeir færðu.

Forsetinn og teymi hans stöðvuðu einnig á bensínstöð á ferð sinni í dag, þar sem fjöldi fólks bað hann ýmist um myndir eða eiginhandaráritun á úkraínska fánann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×