Enski boltinn

Segir Hender­son hafa svikið hin­segin sam­fé­lagið með fé­laga­skiptum til Sádí Arabíu

Siggeir Ævarsson skrifar
 Jordan Henderson hefur látið málefni hinsegin samfélagsins sig varða og sýnt stuðning í verki með því að bera regnbogalitað fyrirliðaband. Það verður væntanlega ekki liðið í Sádí Arabíu
Jordan Henderson hefur látið málefni hinsegin samfélagsins sig varða og sýnt stuðning í verki með því að bera regnbogalitað fyrirliðaband. Það verður væntanlega ekki liðið í Sádí Arabíu Vísir/Getty

Thomas Hitzlsperger er ekki par hrifinn af félagaskiptum Jordan Henderson til Sádí Arabíu. Hann segir ljóst að Henderson sé ekki lengur stuðningsmaður hinseginfólks en dauðarefsing liggur við samkynhneigð þar í landi.

Hitzlsperger, sem lék með Aston Villa, West Ham og Everton í ensku úrvalsdeildinni og 52 landsleiki fyrir Þýskaland, kom út úr skápnum 2014 ári eftir að hann lagði skóna á hilluna. Hann gagnrýndi Henderson á Twitter í morgun og sagðist efast um að stuðningur hans hefði í raun nokkurn tímann verið einlægur.

Henderson hefur síðustu ár verið hávær stuðningsmaður hinsegin samfélagsins en í viðtali við The Athletic 2019 að honum þætti það óhugnaleg tilhugsun að ástvinir hans sem tilheyra hinsegin samfélaginu upplifðu sig mögulega ekki örugga sem áhorfendur á fótboltaleikjum. Það verður að teljast ólíklegt að þessir vinir hans heimsæki hann til Sádí Arabíu til að horfa á hann spila.

Í myndbandi sem Al-Ettifaq birtu á Twitter síðu félagsins í morgun til að bjóða Henderson velkominn er búið að afmá öll ummerki um regnbogafyrirliðabandið hjá Henderson með því að hafa örlítið brot af hverjum ramma alltaf svarthvítan. Það er varla tilviljun hvar svarthvíti hlutinn lendir í hverju skoti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×