Umfjöllun: Breiðablik - FCK 0-2 | Dýrkeypt mistök á fyrstu sekúndum leiksins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ótrúleg björgun á marklínu. Gísli Eyjólfsson skallar að marki
Ótrúleg björgun á marklínu. Gísli Eyjólfsson skallar að marki Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Blika tóku á móti Danmerkurmeisturum FC Kaupmannahafnar í fyrri leik liðanna í annarri umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Blikar gáfu gestunum mark á silfurfati í upphafi leiks, þegar aðeins 42 sekúndur voru liðnar af leiknum.

Blikar áttu í fullu tré við gestina og voru að spila vel en þvert gegn gangi leiksins skoruðu Danirnar annað mark á 32. mínútu og þar við sat.

Eftir gríðarlega spennu í aðdraganda leiks og mikla eftirvæntingu hjá stuðningsmönnum Breiðabliks hófst leikurinn með vonbrigðum þegar liðið var lent marki undir á fyrstu mínútu leiksins. 

Íslendingarnir í liði FCK, Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson, byrjuðu á bekknum en komu báðir inn á. Orri var hársbreidd frá því að skora.Vísir/Hulda Margrét

Þar kom hár bolti inn fyrir vörnina og Anton Ari, markvörður Breiðabliks, hikaði við að hlaupa út á móti honum. Hann komst of seint út úr marki sínu og skaut boltanum í Jordan Larsson sem kom á harðaspretti eftir honum. Larson átti svo eftir að leggja upp seinna mark gestanna.

Anton Ari fór illa af ráði sínu á upphafssekúndum leiksinsVísir/Hulda Margrét

Breiðablik spilaði vel í þessum leik og var á engan hátt verri aðilinn, þeir áttu frábæran kafla um miðjan seinni hálfleik og hefðu hæglega getað jafnað leikinn. Höskuldur Gunnlaugsson og Oliver Sigurjónsson áttu báðir fín skot að marki, en hættulegasta færið átti Gísli Eyjólfsson.

Höskuldur Guðlaugsson fyrirliði Breiðabliks með boltannVísir/Hulda Margrét

Það kom eftir hornspyrnu sem Viktori Erni tókst að skalla aftur inn í teiginn, Gísli var um metra frá marklínunni og náði að pota í boltann en þá kemur markaskorarinn Jordan Larsson, kastar sér fyrir boltann og tekst að bjarga honum á línunni.

Eftir þennan flotta spilkafla ákvað Kaupmannahafnarliðið að sýna hvað í þeim bjó, spiluðu boltanum hratt á milli sín, tóku nokkra þríhyrninga sem rugluðu Blikana alveg í ríminu. Jordan Larsson gaf svo hælsendingu inn fyrir á Rasmus Falk sem kláraði færið.

Það dró svolítinn kraft úr Blikunum að fá mark á sig eftir að hafa sjálfir verið svo nálægt því að koma boltanum inn. En liðið fann kraftinn aftur í seinni hálfleik, FCK lagðist aftar á völlinn til að verja forystu sína, hleyptu Blikunum ofar og beittu hröðum skyndisóknum í leit að þriðja markinu.

Ísak Bergmann á sprettinumVísir/Hulda Margrét

Blikarnir spiluðu fínan seinni hálfleik en áttu ekki jafnmörg marktækifæri og í þeim fyrri. Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, gerði fjórar skiptingar á sínu liði í þeirri von að minnka muninn.

Orri Steinn að koma inn á. Óskar faðir hans virðist mögulega vera að reyna að taka strákinn á taugum þarna í bakgrunniVísir/Hulda Margrét

Varamanninum Ágústi Eðvald tókst næstum því að gera það á lokamínútu leiksins, boltinn datt fyrir hann eftir hornspyrnu, hann komst framhjá varnarmanninum og skaut í átt að marki en skotið var varið. Fljótlega eftir það flautaði dómarinn leikinn af, lokaniðurstaða 0-2 tap Breiðabliks.

Stuðningsmenn FCK rifu sig úr að ofan, enda alltaf blíða í KópavogiVísir/Hulda Margrét




Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira