Erlent

Nýsamþykkt lög draga úr áhrifum Hæstaréttar Ísraels

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum í Ísrael í dag.
Frá mótmælum í Ísrael í dag. AP/Ariel Schalit)

Ísraelska þingið, Knesset, samþykkti í dag fyrstu breytingarnar á dómskerfi landsins sem miða að því að auka vald þings og framkvæmdavalds og draga úr valdi dómstólanna.

Mikil mótmæli hafa verið í landinu gegn áformum nýrrar hægristjórnar landsins. Hundruð manna hafa verið handtekin. Í gærkvöldi og í dag, í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar, beitti lögregla öflugum vatnsbyssum til að dreifa mótmælendum.

Eftir að fyrstu breytingarnar voru samþykktar í dag urðu mótmælendur reiðir. Leiðtogar mótmælenda segjast ekki ætla að hætta, samkvæmt frétt Times of Israel og heita því að berjast áfram gegn frumvarpinu.

Samkvæmt nýju lögunum getur hæstiréttur landsins ekki lengur ógilt umdeildar ráðstafanir þingsins meðal annars á herteknu svæðunum í Palestínu. Stjórnarandstæðingar segja breytingarnar meðal annars getað dregið úr vilja fólks til að gegna herskyldu.

Þúsundir varaliðshermanna hafa sagt að nái frumvarpið í gegn, muni þeir ekki bjóða sig fram til herþjónustu og Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur sagt að framganga frumvarpsins muni grafa undan öryggi landsins.

Netanjahú myndaði mjög hægri sinnaða ríkisstjórn í desember í fyrra eftir langvarandi þrátefli og margar kosningar þar sem ekki náðist að mynda ríkisstjórn. Hann stendur frammi fyrir nokkrum ákærum og dómsmálum, þar sem hann er meðal annars sakaður um spillingu.

Fyrsta skrefið

Yariv Levin, dómsmálaráðherra Ísraels, sagði í kjölfar þess að fyrstu breytingarnar voru samþykktar að um fyrsta skrefið af mörgum væri að ræða. Hann hefur lengi sakað dómara um að taka sér of mikið vald og þá af kosnum leiðtogum Ísraels. Samkvæmt New York Times gaf hann til kynna í ræðu í dag að hann vildi ganga lengra.

„Við höfum tekið fyrsta skrefið í átt að sögulegum og mikilvægum árangri í endurbótum á dómstólum landsins,“ sagði Levin. Andstæðingar hans saka hann þó um að færa Ísrael nær einræði.

Netanjahú ætlar að ávarpa þjóðina seinna í dag.


Tengdar fréttir

Greiða atkvæði í skugga mikilla mótmæla

Atkvæðagreiðsla um umdeilt frumvarp ríkisstjórnar Ísraels um dómstóla landsins er hafin. Mikil mótmæli hafa verið haldin vegna frumvarpsins en gagnrýnendur segja það ógna lýðræði Ísrael.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×