Innlent

Gos­móðan kemur og fer

Árni Sæberg skrifar
Esjan sést betur í dag en í gær. Það mun þó sennilega breytast.
Esjan sést betur í dag en í gær. Það mun þó sennilega breytast. Vísir/Árni

Því hefur verið spáð að gosmóða muni liggja yfir höfuðborgarsvæðinu fram á þriðjudag en árrisulir íbúar höfuðborgarsvæðisins tóku vafalítið eftir því í morgun að hún er heldur minni en í gær. Veðurfræðingur segir þó að hún komi líklegast til með að leggjast af þunga á svæðið síðdegis.

Þegar blaðamaður mætti til vinnu á Suðurlandsbrautina í morgun blasti Esjan við honum til vesturs, en í gær var hún alveg hulin gosmóðu. Þá var greint frá því að veðurfræðingur byggist við áframhaldandi gosmóðu og mengun á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni fram yfir helgi. Ekki er búist við vaxandi suðaustanátt fyrr en á þriðjudag.

Hrafn Guðmundsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að þrátt fyrir að móðan sé vissulega minni í dag en í gær, sé ekkert fararsnið á henni. 

Enn sé hæg breytileg átt og búist sé við að gosmóðan verði áfram út um allt, eins og hann orðar það. Í gær náði gosmóðan allt frá Suðurlandi að Norðvesturlandi.

Þá segir Hrafn að nýjasta dreifingarspá bendi til þess að gosmóðan muni leggjast yfir höfuðborgarsvæðið af svipuðum þunga og í gær síðdegis. „En það er ómögulegt að segja, það eru margir hlutir sem spila inn í,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Esjan sést ekki fyrir gos­móðu

Gosmóða liggur yfir höfuðborginni í bland við þokuloft og því lítið skyggni á svæðinu. Esjan sem vanalega sést út um gluggann frá höfuðstöðvum fréttastofu er horfin inn í móðuna.

Esjan er horfin

Gosmóða hylur nú bæjarfjall höfuðborgabúa. Sjaldan eða aldrei hefur gosmengunin verið svo mikil í höfuðborginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×