Erlent

Úkraínuforseti skorar á heimsbyggðina að vakna

Heimir Már Pétursson skrifar
Vinir Victoriu Amelina minntust hennar í minningarathöfn í Kænugarði í dag. Hún verður jarðsungin síðar í heimaborg sinni Lviv.
Vinir Victoriu Amelina minntust hennar í minningarathöfn í Kænugarði í dag. Hún verður jarðsungin síðar í heimaborg sinni Lviv. AP/Jae C. Hong

Forseti Úkraínu segir heimsbyggðina verða að beina athygli sinni að undirbúningi Rússa fyrir að sprengja kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í loft upp. Aðeins athygli alþjóðasamfélagsins og vissa um viðbrögð þess geti fælt Rússa frá hryðjuverkum.

Eitt af nýjustu hryðjuverkum Rússa er eldflaugaárás þeirra á veitingastað í borginni Kramatorsk hinn 27. Júní þar sem ellefu fórust og rúmlega fimmtíu særðust. Minningarathöfn var haldin í Kænugarði í dag fyrir hins 37 ára gömlu Victoriu Amelina sem féll í eldflaugaárásinni.

Amelina er virtur rithöfundur í Úkraínu en frá því innrás Rússa hófst hafði hún einhent sér í að vinna við skráningu á stríðsglæpum Rússa. Hún sat fyrir utan matsölustaðinn með félögum sínum þegar eldflaugin sprakk.

Forseti Úkraínu segir umheiminn verða að sýna Rússum að fylgst sé með undirbúningi þeirra á hryðjuverki í kjarnorkuverinu og að það muni hafa afleiðingar ef þeir sprengja verið í loft upp.Getty

Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu ítrekaði viðvaranir sínar til umheimsins í daglegu ávarpi í gærkvöldi vegna ummerkja um að Rússar ætli að sprengja kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í loft upp.

„Heimsbyggðin verður að átta sig á því að öryggi hennar hvílir algerlega á því að hún fylgist með því sem innrásarliðið er að gera og þeim aðgerðum alþjóðasamfélagið grípur til. Rússum verður að vera ljóst að umheimurinn taki eftir þeim hryðjuverkum sem þeir eru að undirbúa og sé reiðubúinn að bregðast við,“ sagði Zelensky.

Því miður hefðu engin meiriháttar viðbrögð verið við hryðjuverkaárás Rússa á Kakhovka fallorkuverið.

„Og það getur hvatt Kremlin til frekari illvirkja. Það er á ábyrgð allra í heiminum að koma í veg fyrir það. Það getur enginn staðið aðgerðarlaus hjá, vegna þess að geislavirkni hefur áhrif á alla,” sagði Volodymyr Zelensky.


Tengdar fréttir

Segir Rúss­land sam­einað sem aldrei fyrr

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fullyrti að þjóð sín væri sameinuð sem aldrei fyrr þegar hann ávarpaði fjölþjóðlega ráðstefnu í dag. Sakaði hann vestræn ríki um að gera Úkraínu að óvinveittu ríki sem væri andstæða Rússlands.

Rússar viður­kenna að hafa flutt um 700.000 börn frá Úkraínu

Rússar hafa viðurkennt að hafa flutt 700 þúsund börn frá Úkraínu og til Rússlands frá því að innrásin hófst. Þeir segja um að ræða aðgerðir til að vernda munaðarleysingja og börn sem hafa verið yfirgefin á átakasvæðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×