Erlent

Tsipras hættir eftir að Syriza beið af­hroð í kosningum

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras tók við formennsku í Syriza árið 2012 og var forsætisráðherra Grikklands á árunum 2ö15 til 2019.
Alexis Tsipras tók við formennsku í Syriza árið 2012 og var forsætisráðherra Grikklands á árunum 2ö15 til 2019. AP

Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, hefur ákveðið að segja af sér formennsku í vinstriflokknum Syriza eftir að flokkurinn beið afhroð í nýafstöðnum þingkosningum.

Tsipras gegndi embætti forsætisráðherra Grikklands á árunum 2015 til 2019, á tíma þegar Grikkjum var gert að sæta ströngum aðhaldsaðgerðum í efnahagsmálum vegna skuldastöðu sinnar til að hægt væri að tryggja gríska ríkinu frekari lán. Kröfðust margir þess á sínum tíma að Grikklandi yrði vikið úr evrusamstarfinu vegna stöðunnar.

Hinn 48 ára Tsipras greindi frá ákvörðun sinni í sjónvarpsávarpi í morgun. Hann sagði tíma til kominn að „hefja nýja hringrás“ og að þetta tap í kosningunum yrði að verða nýtt upphaf þeirrar hringrásar. Sagði hann ennfremur að boðað yrði til formannskosninga í Syriza þar sem hann yrði sjálfur ekki í framboði.

Syriza hlaut um átján prósent atkvæða í þingkosningum um liðna helgi þar sem hægriflokkurinn Nýtt lýðræði tryggði sér meirihluta og mun þannig áfram fara með stjórn landsins.

Tsipras og Syriza komst á sínum tíma til valda í landinu vegna loforða um að berjast harkalega gegn hinum ströngu aðhaldsaðgerðum Evrópusambandsins. Fjölmargir háttsettir innan vinstristjórnar Syriza áttu þó eftir að snúa baki við stjórninni og segja af sér vegna þess sem þau sögðu undirlægjuhátt í garð Evrópusambandsins og sér í lagi Þýskalands.

Tsipras segist munu starfa áfram sem formaður þar til að nýr hefur verið valinn. Hann er sá sem hefur lengst gegnt formannsembættinu í nítján ára sögu flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×