Erlent

Sam­þykkja leyfi fyrir ní­tján olíu- og gas­vinnslu­verk­efni við Noreg

Kjartan Kjartansson skrifar
Norski olíuborpallurinn Edvard Grieg í Norðursjó.
Norski olíuborpallurinn Edvard Grieg í Norðursjó. AP/Hakon Mosvold Larsen/NTB Ccanpix

Norsk stjórnvöld gáfu grænt ljós á nítján olíu- og gasvinnsluverkefni á landgrunni sínu í dag. Heildarfjárfestingin er sögð nema meira en 200 milljörðum norskra króna, jafnvirði meira en 2.500 milljarða íslenskra króna.

Leyfin sem voru gefin út í dag eru fyrir vinnslu á nýjum stöðum og aukna framleiðslu á stöðum þar sem vinnsla fer þegar fram, að sögn AP-fréttastofunnar.

Terje Åsland, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, sagði verkefnin mikilvægt framlag til orkuöryggis Evrópu þegar tilkynnt var um leyfisveitingarnar í dag. Með þeim geti Norðmenn tryggt framboð á jarðefnaeldsneyti út þennan áratug.

Tekjur Norðmanna af olíu- og gasútflutningi, sem voru miklar fyrir, hafa aukist verulega eftir að Evrópuríki úthýstu rússnesku gasi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu í fyrra. Norsk stjórnvöld hafa borið af sér sakir um að þau hagnist á stríðinu.

Vísindamenn hafa lengi varað við því að draga verða hratt úr losun manna á gróðurhúsalofttegundum til þess að koma í veg fyrir enn frekari hnattræna hlýnun. Til þess verði að skilja nær allt þekkt jarðefnaeldsneyti eftir í jörðinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×