Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍBV 0-2 | ÍBV skilur Selfyssinga eftir á botninum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Olga Sevcova skoraði fyrra mark ÍBV í kvöld.
Olga Sevcova skoraði fyrra mark ÍBV í kvöld. VÍSIR/BÁRA

ÍBV vann mikilvægan 2-0 sigur er liðið heimsótti Selfyssinga í botnslag Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fyrsti deildarsigur ÍBV síðan 15. maí síðastliðinn.

Þrátt fyrir að lítið hafi verið um opin marktækifæri í upphafi leiks var leikurinn nokkuð opin og bæði lið náðu að koma sér í ákjósanlegar stöður. Hvorugu liðinu tókst þó að ógna markinu af einhverju viti framan af, en það lifnaði þó yfir færasköpun eftir því sem leið á fóru færin þó að láta sjá sig.

Heimakonur virtust heldur líklegri til að brjóta ísinn og besta færi þeirra kom á 14. mínútu þegar Emelía Óskarsdóttir fékk boltann inni á teig eftir vel útfærða skyndisókn, en Guðný Geirsdóttir gerði vel í að gera sig stóra í marki gestanna og varði vel.

Það var svo loksins á 34. mínútu að ísinn var loksins brotinn þegar Olga Sevcova fékk boltann úti á vinstri kanti, spændi sig í gegnum vörn Selfyssinga og þrumaði honum svo í nærhornið.

Eyjakonur voru svo ekki lengi að bæta við öðru markinu því aðeins fimm mínútum síðar fékk liðið vítaspyrnu eftir að Sif Atladóttir virtist handleik knöttinn innan vítateigs. Þóra Björg Stefánsdóttir fór á punktinn fyrir gestina, skoraði af miklu öryggi og sá til þess að gestirnir fóru með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið.

Heimakonur byrjuðu síðari hálfleikinn svo af miklum krafti og ljóst var að uppleggið var að reyna að minnka muninn snemma. Liðið kom sér í góðar stöður trekk í trekk, en alltaf vantaði gamla góða herslumuninn upp á til að koma boltanum í netið.

Besta færi heimakvenna fékk Guðrún Þóra Geirsdóttir eftir fyrirgjöf frá Jimena López sem Katrín Ágústsdóttir reyndi að koma á markið. Boltinn barst þá á Guðrúnu sem reyndi að moka boltanum yfir marklínuna, en þaðan fór hann í þverslána og yfir.

Eftir því sem leið á síðari hálfleikinn fór að fjara undan sóknarleik heimakvenna og Eyjakonur kláruðu að lokum mikilvægan 2-0 sigur og sigla heim til Eyja með þrjú stig í farteskinu.

ÍBV lyftir sér með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar með tíu stig, en þetta var fyrsti sigur liðsins í deild síðan 15. maí síðastliðinn. Selfyssingar sitja hins vegar enn á botni deildarinnar með sjö stig.

Af hverju vann ÍBV?

Ætli gamla góða klisjan um að nýta færin eigi ekki vel við hér. Selfyssingar komu sér oft og tíðum í ákjósanlegar stöður til að koma boltanum í netið, en gerðu það ekki. Eyjakonur nýttu sín færi hins vegar vel og ætli það hafi ekki verið það sem skildi liðin að í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Guðný Geirsdóttir átti flottan leik í marki ÍBV og sá til þess að hún þyrfti aldrei að sækja boltann í netið með nokkrum góðum vörslum. Þá má einnig hrósa varnarlínu ÍBV í heild sem gerði vel í að halda aftur að sóknarmönnum Selfyssinga. 

Fram á við voru Olga Sevcova og Holly O'Neill hættulegastar í liði ÍBV og ollu varnarmönnum Selfoss oft og tíðum vandræðum.

Hvað gekk illa?

Eins og svo oft áður í sumar gekk Selfyssingum afar illa að koma boltanum í netið. Liðið er þó farið að skapa sér fleiri og betri færi, en það telur lítið ef boltinn fer aldrei yfir marklínuna.

Hvað gerist næst?

Selfoss sækir Þrótt heim næstkomandi mánudag klukkan 19:15 og ÍBV tekur á móti Stjörnunni degi síðar klukkan 18:00.

Todor:

Todor Hristov er þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

Todor Hristov, þjálfari ÍBV, var eðlilega sáttur með sigur liðsins í kvöld. Fyrir leik talaði hann um mikilvægi leiksins og grínaðist með það að leik loknum.

„Fáum við sex stig fyrir þennan leik?“ sagði Todor léttur í leikslok.

„Nei, nei. Þetta var mjög mikilvægur leikur og eins og ég sagði samt fyrir leik þá er hver einasti leikur mikilvægur, en þetta er smá sérstakur leikur að ná að vinna. Stórt hrós á stelpurnar og þetta var mjög góð frammistaða og mér fannst þetta bara sanngjörn úrslit.“

Eyjakonur voru eins og áður segir án sigurs í deild síðan 15. maí síðastliðinn og Todor viðurkennir að það hafi vissulega verið léttir að ná loksins að landa sigri.

„Við erum búin að eiga oft flotta og jafna leiki sem enda svo þannig að við töpum eða fer jafntefli eins og leikurinn á móti Keflavík. En núna loksins kom þetta og þessar stelpur eiga skilið að fá þrjú stig. Ég er mest ánægður fyrir þeirra hönd.“

Todor og hans lið lá nokkuð til baka í síðari hálfleik og Selfyssingar sköpuðu sér oft og tíðum álitlegar stöður. Þjálfarinn vildi þó ekki gefa upp hvort það hafi verið uppleggið að leggja til baka.

„Ég ætla að halda því fyrir mig. Það kemur ekkert á óvart að Selfyssingarnir hafi mætt brjálaðir í seinni hálfleikinn, en þetta var bara svar sem við áttum og gekk mjög vel upp fannst mér.“

Eyjakonur taka á móti Stjörnunni í næstu umferð og Todor segir að sitt lið geti klárlega byggt á úrslitum kvöldsins.

„Það er mjög gott ef við náum að taka það besta úr þessum leik og byggja ofan á það og vonandi náum við að nýta okkur það til að vinna næsta þriðjudag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira