Innlent

„Aug­ljóst að eitt­hvað er að gerast og virðist vera nokkuð al­var­legt“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra fylgist grannt með framvindu mála í Rússlandi eins og líklega margir þessa stundina.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra fylgist grannt með framvindu mála í Rússlandi eins og líklega margir þessa stundina. Vísir/Steingrímur Dúi

Utanríkisráðherra fylgist grannt með framvindu mála í Rússlandi og metur stöðuna klukkustund frá klukkustund. Hún segir stöðuna ekki koma á óvart þar sem þetta hafi verið ein af þeim sviðsmyndum sem hafi verið teiknaðar upp. Þó sé enn óljóst að leggja mat á hvað raunverulega sé að gerast. 

„Það er mikið skrifað, mikið sagt. Mikið sem birtist í rauntíma en það er erfitt á þessum mikla hraða að sannreyna hvað er satt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, spurð um hvernig staðan blasi við henni.

„Ég myndi segja að það væri ansi mikil stríðsþoka yfir raunverulegri stöðu. Það er augljóst að það er eitthvað er að gerast og virðist vera nokkuð alvarlegt. En hver atburðarrásin verður, hún í raun breytist klukkustund frá klukkustund og töluvert erfitt að leggja raunverulegt mat á hvað er að gerast. Við þurfum einfaldlega að meta stöðuna klukkustund frá klukkustund.“

Þórdís segir stöðuna ekki koma á óvart þar sem þetta væri ein af þeim sviðsmyndum sem hefðu verið teiknaðar upp.

„En við vitum ekki ennþá hvað þetta er, vitum ekki hvort þeir ná því sem þeir ætla sér, hvað kemur þá í staðinn. Það er ekki eins og þarna sé um að ræða mann með glæsta sögu, þannig að þetta kemur ekki á óvart en gerðist þó töluvert hratt í gærkvöldi.“

Þórdís segir mjög fáa íslenska ríkisborgara í Rússlandi, þeir séu á milli tíu og fimmtán og séu nær St.Pétursborg en Moskvu.

„En við erum auðvitað með sendiherra og okkar starfsfólk úti og erum í nánu samstarfi við þau og höfum sent út tilmæli og slíkt. Og erum í mjög nánu samstarfi við Norðurlöndin og líkt þenkjandi ríki í Moskvu.

Áður hafði verið gefið út að íslenska sendiráðinu í Rússlandi yrði lokað 1. ágúst. Þórdís segir að það verði að koma í ljós hvort og hversu lengi það verði öruggt að vera inn í Moskvu.

„Við tökum þær ákvarðanir í takti við það sem önnur ríki eru að gera. Og ef sú staða kemur upp þá skiptir ekki máli hvert formið er á ákvörðunum sem við höfum þegar tekið, þá verðum við einfaldlega að bregðast við alvarleika innanlands.“

Telur þú að rússnenska þjóðin standi á bakvið Pútín?

„Það er engin leið að segja og ekki mitt að leggja mat á það. Auðvitað er um land að ræða þar sem það ríkir ekki raunverulegt hugsunarfrelsi, það er ekki fjölmiðlafrelsi, fólk fær ekki að tjá sig eins og það vill. Þetta er mjög flókin staða og hefur ekki bara verið undanfarin ár heldur undanfarin mjög mörg ár. Þannig að það verður að koma í ljós og verður áhugavert að fylgjast með hver viðbrögðin eru, til að mynda innan rússneska hersins. Og hvaða áhrif það hefur svo á rússneska herinn í Úkraínu.“

Það er auðvitað það sem við horfum til, hvort þetta breyti einhverju í þeirri stöðu, að Úkraínski herinn geti náð meiri árangri í að ná til baka landi sem er þeirra samkvæmt alþjóðalögum og landamærum.

Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fer fram í Vilníus eftir rétt rúmar tvær vikur.

„Það er mikill undirbúningur fram að þeim fundi. Vilníus er auðvitað mjög skammt frá Belarús, það eru ekki nema 25 kílómetrar þangað og það verður örugglega mjög margt búið að gerast fram að þeim tíma en hvað það verður veit ég ekki,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×