Erlent

Undra­vert hve lík ör­lög Titan og Titanic séu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
James Cameron segir ískyggilegt hve lík örlög kafbátsins Titan og farþegaskipsins Titanic séu. Það sé súrrealískt að þau hafi farist á sama stað á meðan færið væri í köfunarleiðangra um allan heim.
James Cameron segir ískyggilegt hve lík örlög kafbátsins Titan og farþegaskipsins Titanic séu. Það sé súrrealískt að þau hafi farist á sama stað á meðan færið væri í köfunarleiðangra um allan heim. Samsett/Getty

James Cameron, leikstjóri Titanic og sjávarkönnuður, segir örlög kafbátsins Titan og skipsins Titanic ískyggilega lík. Hvort tveggja væru harmleikir þar sem skipstjórar voru varaðir við en hunsuðu ráðleggingar og héldu ótrauðir áfram út í dauðann.

Cameron tjáði sig í fyrsta skipti um kafbátinn Titan og örlög hans í viðtali við ABC í kvöld.

Sjálfur hefur hann mikla þekkingu á neðansjávarköfun, hefur kafað niður að flaki Titanic og var fyrsti maðurinn til að kafa niður á botn Maríanadjúpálsins þar sem er mesta hafdýpi á jörðinni, rúmir ellefu kílómetrar.

Hafið og neðansjávarköfun hafa sömuleiðis verið fyrirferðarmikil í kvikmyndum hans, þar má nefna Titanic, Avatar 2: The Way of Water, The Abyss og Aliens of the Deep.

Aðvaranir virtar að vettugi í báðum tilvikum

Í viðtalinu sagði hann að fólk innan samfélags neðansjávarkönnunar hafi verið mjög áhyggjufullt vegna leiðangurs Titan. 

Fjöldi þekktra neðanjsávarverkfræðinga hafi meira að segja skrifað bréf til OceanGate til að vara við því að kafbáturinn væri of tilraunakenndur. Kafbáturinn hafi ekki verið vottaður af viðurkenndum aðilum og ferðalagið hafi verið glæfraför.

Hann segir að það hafi slegið sig hve lík örlög kafbátsins og Titanic voru. En í tilfelli farþegaskipsins var skipstjórinn ítrekað varaður við ísjökunum sem voru fram undan en sigldi ótrauður áfram inn í hafísinn og vota gröfina.

„Fyrir okkur er þetta mjög sambærilegur harmleikur þar sem aðvaranir voru virtar að vettugi. Að það eigi sér stað á nákvæmlega sama stað, með alla þá köfun sem á sér stað um allan heim, mér finnst það undravert. Það er í rauninni mjög súrrealískt,“ segir Cameron.


Tengdar fréttir

Leita á meðan vonin lifir

Leitin að kafbátnum Titan hefur enn engan árangur borið. Forsvarsmenn leitarinnar segja hana flókna og að áhersla sé lögð á að finna uppruna hljóðs sem heyrðist í gærkvöldi.

Leita kafbáts sem hvarf nærri Titanic

Lítill kafbátur sem notaður er til að ferja ferðamenn að flaki Titanic er horfinn. Leit stendur nú yfir en talið er að allt að fimm manns hafi verið um borð í kafbátnum þegar hann hvarf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×