Erlent

Tate á­kærður fyrir nauðgun og man­sal

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tate hefur setið í stofufangelsi síðan í lok mars.
Tate hefur setið í stofufangelsi síðan í lok mars. EPA

Umdeildi áhrifavaldurinn Andrew Tate hefur verið ákærður fyrir nauðgun, mansal og skipulagða glæpastarfsemi í Rúmeníu.

Í frétt The Guardian segir að Tate, ásamt bróður sínum, Tristan Tate, hafi verið ákærður fyrir grun um mansal á sjö konum. Þeir neituðu báðir sök.

Þá er áhrifavaldurinn að auki ákærður fyrir að hafa nauðgað einni af sjö konunum, á meðan bróðir hans er ákærður fyrir að hafa hvatt til ofbeldis. 

Samkvæmt rúmenskum lögum verður málið sent áleiðis til dómara sem hefur sextíu daga til þess að rannsaka gögn tengd málinu áður en málsmeðferð fer fram.

Bræðurnir voru handteknir á heimili sínu í Búkarest, ásamt vitorðsmönnunum Georgianu Naghel og Luana Radu, í lok síðasta árs. Þeir sátu í gæsluvarðhaldi þar til í lok mars, þegar þeir voru úrskurðaðir í stofufangelsi.

Saksóknarar segja bræðurna hafa gabbað konur til að ferðast til Rúmeníu, þar sem þeir búa, bannað þeim að fara úr húsi, haldið þeim sem þrælum og þvingað þær til að framleiða klám.

Þá segja þeir konurnar hafa verið þvingaðar til að húðflúra á sig nafn eða mynd af andliti þess sem átti einn rétt á því að brjóta á þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×