Erlent

Áttu „opin­skáar“ og „upp­byggi­legar“ við­ræður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken og Wang fóru fyrir viðræðum í morgun.
Blinken og Wang fóru fyrir viðræðum í morgun. AP/Leah Millis

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með Wang Yi, framkvæmdastjóra utanríkismála í miðstjórn kínverska Kommúnistaflokksins, í morgun. Blinken er í formlegri heimsókn í Kína en ekki liggur fyrir hvort hann mun hitta forsetann, Xi Jinping.

Búist er við því að Blinken haldi heim á leið í dag en í gær fóru fram nærri átta tíma viðræður milli sendinefnda Bandaríkjanna og Kína, undir forystu Blinken og kínverska utanríkisráðherrans Qin Gang.

Stjórnvöld vestanhafs sögðu viðræðurnar hafa verið opinskáar og uppbyggilegar.

Báðir aðilar lýstu vilja til að vinna að bættum samskiptum ríkjanna og náðu saman um að Qin myndi heimsækja Washington en engin tímasetning var nefnd í því samhengi.

Samkvæmt kínverska ríkismiðlinum CCTV sagði Qin við Blinken að samskipti ríkjanna hefðu aldrei verið verri, sem væri hvorki ríkjunum í hag né í takt við væntingar alþjóðasamfélagsins.

Þá hafa kínverskir miðlar greint frá því að Qin hafi verið skýr með það að Taívan væri það mál sem væri Kínverjum mikilvægast; það varðaði grundvallarahagsmuni Kína, væri mikilvægasta málefnið hvað varðaði samskipti Kína og Bandaríkjanna og stærsti áhættuþátturinn.

Blinken er sagður hafa lagt áherslu á að ríkin héldu áfram að ræða saman um öll mál til að koma í veg fyrir mögulegan misskilning.

Horft er til þess að heimsókn Blinken verði sú fyrsta af fleiri heimsóknum á næstu mánuðum. Kemur meðal annars til greina að fjármálaráðherrann Janet Yellen og viðskiptaráðherrann Gina Raimondo heimsæki Kína á næstunni.

Þá er mögulegt að Xi og Joe Biden Bandaríkjaforseti gætu fundað síðar á árinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×