Erlent

Ástralir stöðva byggingu á nýju sendi­ráði Rússa

Atli Ísleifsson skrifar
Rússar skuldbundu sig árið 2008 til að ljúka framkvæmdum á nýju sendiráði í Canberra á þremur árum. Þeim er enn ekki lokið.
Rússar skuldbundu sig árið 2008 til að ljúka framkvæmdum á nýju sendiráði í Canberra á þremur árum. Þeim er enn ekki lokið. AP

Ástralska þingið hefur samþykkt lagafrumvarp sem felur í sér að framkvæmdir á nýju sendiráði Rússa í grennd við þinghúsið í áströlsku höfuðborginni Canberra séu stöðvaðar. Er þar vísað til öryggissjónarmiða.

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, segir að löggjöfin feli sér sviptingu á rétti rússneskra stjórnvalda til leigu á umræddri lóð. Báðar deildir ástralska þingsins samþykktu löggjöfina innan við tveimur tímum eftir að málið var lagt fram .

Ríkisstjórn landsins ákvað að leggja málið fram eftir að rússnesk yfirvöld höfðu haft betur í máli fyrir í alríkisdómstól í síðasta mánuði sem kom í veg fyrir útburði Rússa af lóðinni þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu ár. 

Borgaryfirvöld í Canberra höfðu áður sagt upp leigusamningi vegna tafa á framkvæmdum frá því að lóðarleigusamningurinn var gerður árið 2008. Samkvæmt þeim samningi höfðu rússnesk stjórnvöld skuldbundið sig til að ljúka framkvæmdum á þremur árum, en framkvæmdum er einungis að hluta lokið og enn langt í land.

Albanese segir að ástralskar öryggisstofnanir hafi ráðlagt stjórnvöldum að það þjóni þjóðaröryggi að vera ekki með rússneska viðveru svo nálægt þinghúsinu.

Sendiráðið sem hefur verið í byggingu er við hlið ástralska þinghússins, en núverandi sendiráð Rússlands er að finna í hverfinu Griffith, mun fjær þinghúsinu.

Albanese leggur áherslu á að sendiráð Ástralíu í Moskvu verði áfram starfrækt líkt og núverandi sendiráð Rússlands í Canberra. „En við reiknum ekki með að Rússland sé í stöðu til ræða alþjóðalög, litið til ítrekaðra og óskammfeilinna brota þeirra á þeim í tengslum við innrásina í Úkraínu,“ segir Albanese.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×