Erlent

Ass­an­ge nú sagður „hættu­lega ná­lægt því að verða fram­seldur“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Assange hefur verið haldið í Belmarsh-fangelsinu í meira en fjögur ár, þar sem heilsu hans hefur hrakað mjög.
Assange hefur verið haldið í Belmarsh-fangelsinu í meira en fjögur ár, þar sem heilsu hans hefur hrakað mjög. Getty/Jack Taylor

Bróðir Julian Assange segir hann „hættulega nálægt því að verða framseldur“ til Bandaríkjanna eftir að dómari við yfirrétt á Bretlandseyjum hafnaði alfarið umleitan lögmanna hans.

Lögmennirnir listuðu í kröfu sinni átta ástæður fyrir því að koma ætti í veg fyrir framsal Assange, sem stjórnvöld í Bandaríkjunum fóru fram á og þáverandi innanríkisráðherra Breta, Priti Patel, undirritaði.

Dómarinn Jonathan Swift hafnaði hins vegar öllum rökum lögmannanna og Assange á aðeins eitt úrræði eftir innan breska dómskerfisins; lögmenn hans hafa nú fimm daga til að áfrýja málinu til tveggja dómara við sama dómstól.

Ef þeir komast að sömu niðurstöðu og Swift er Mannréttindadómstóll Evrópu eina úrræðið eftir sem gæti bjargað Assange frá því að verða framseldur til Bandaríkjanna en málinu hefur þegar verið skotið þangað.

Guardian hefur eftri Stellu Assange, eiginkonu og barnsmóður Julian, að þau séu enn bjartsýn á að hann verði ekki framseldur. John Shipton, faðir hans, segir fjölskylduna hafa fylgst með málinu af hryllingi og sama eigi við um allt réttsýnt fólk.

Lögmenn Assange héldu því meðal annars fram að Patel hefði ekki gert rétt með því að samþykkja framsalsbeiðnina frá Bandaríkjunum, þar sem málið snérist um pólitík. Þá væri farið á eftir Assange fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt og að framsalsbeiðnin sjálf væri valdníðsla.

Assange á yfir höfði sér allt að 175 ár í fangelsi ef hann verður framseldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×