Innlent

Fólk beðið um að láta af brauðgjöf til andanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Önd með ungana sína á Tjörninni.
Önd með ungana sína á Tjörninni. Reykjavíkurborg

Dýravinir á öllum aldri eru beðnir um að standast þá freistingu að gefa öndunum brauð við Tjörnina í Reykjavík í sumar. Ástæðan eru sílamávar sem eru líklegir til að vaða í nýklakta andarungana.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er vakin athygli á því að andarungarnir fari nú að birtast á Tjörninni. Er fólk vinsamlegast beðið um að gefa öndunum ekki brauð.

„Með auknum fjölda sílamáva við Tjörnina aukast líkurnar á að nýklaktir andarungar verði þeim að bráð,“ segir á vef borginnar. 

Endur hafi nóga fæðu á Tjörninni yfir sumartímann fyrir sig og ungana sína og því sé ekki þörf á að fóðra þær. 

„Mikið magn brauðs getur aukið lífræna mengun í Tjörninni ekki síst vegna þess að fjöldi fugla margfaldast þegar sílamávarnir mæta á Tjörnina. Drit úr fuglunum sem og brauðið sjálft stuðlar að lífrænni mengun.“

Ekki sé því ráðlegt að gefa brauð yfir sumartímann, frá 15. maí til 15. ágúst.

„Yfir haust og vetrarmánuði er óhætt að gefa fuglunum við Tjörnina og sérstaklega þegar kaldast er í veðri yfir háveturinn er slík aðstoð vel þegin enda getur fæðuframboð fyrir endur verið lítið á þeim árstíma.“


Tengdar fréttir

Ekki gefa fuglunum við Tjörnina brauð

Varptíminn við Tjörnina er nú í hámarki og fyrstu ungarnir koma óvenju snemma úr eggjum. Því er mikilvægt að hætta brauðgjöfum því brauðið laðar að máfa sem eiga það til að éta litla unga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.