Erlent

Óttast „stjórn­lausan“ flaum hjúkrunar­fræðinga frá bág­stöddum ríkjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjúklingar þurfa að bíða lengur vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki og þá er hætt við að ekki verði hægt að sinna ákveðinni þjónustu, svo sem bólusetningum.
Sjúklingar þurfa að bíða lengur vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki og þá er hætt við að ekki verði hægt að sinna ákveðinni þjónustu, svo sem bólusetningum. Getty

Áhyggjur eru uppi vegna „stjórnlauss“ brottflutnings hjúkrunarfræðinga frá bágstöddum ríkjum á borð við Ghana til efnaðri ríkja, til að mynda Bretlands. Árið 2022 voru 1.200 hjúkrunarfræðingar frá Ghana nýskráðir á lista yfir hjúkrunarfræðinga á Bretlandseyjum.

Samkvæmt reglum er breskum heilbrigðisyfirvöldum ekki heimilt að leita utan landsteinanna eftir hjúkrunarfræðingum en reglurnar koma hins vegar ekki í veg fyrir að hjúkrunarfræðingar annars staðar í heiminum fylgist með atvinnuauglýsingum og sæki um.

„Það er mín tilfinning að ástandið sé stjórnlaust,“ segir Howard Catton, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) um brotthvarf hjúkrunarfræðinga frá bágstaddari ríkjum til betur settra ríkja.

Hann segir ástandið drifið áfram af ráðningum í sex eða sjö ríkjum en að stórum hluta er um að ræða sérmenntaða hjúkrunarfræðinga frá fátækum ríkjum sem hafa varið umtalsverðum fjármunum í þjálfun heilbrigðisstarfsmannanna og mega ekki við því að missa þá.

BBC ræddi við yfirmenn á tveimur sjúkrahúsum í Ghana, þar sem um tuttugu hjúkrunarfræðingar höfðu sagt upp og ráðið sig til starfa í Bretlandi eða Bandaríkjunum á síðustu sex til tólf mánuðum.

„Allir bráðahjúkrunarfræðingarnir okkar, reyndu hjúkrunarfræðingarnir okkar, eru farnir. Þannig að við stöndum uppi tómhent; ekkert reynt starfsfólk að vinna með. Jafnvel þótt stjórnvöld ráði starfsfólk þurfum við að þjálfa það upp á nýtt,“ segir Caroline Agbodza, hjúkrunarforstjóri á Cape Coast Municipal Hospital.

Þeir sem BBC ræddu við segja atgervisflóttann hafa bein áhrif á gæði heilbrigðisþjónustunnar og að hann sé bókstaflega að valda dauðsföllum. Einn yfirlæknir benti meðal annars á að sú staða gæti komið upp að það yrðu engir hjúkrunarfræðingar til að bólusetja börn gegn banvænum sjúkdómum.

Hjúkrunarfræðingar frá Ghana þéna allt að sjö sinnum meira á Bretlandi en í heimalandinu en framkvæmdastjóri heilbrigðisstétta hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni segir Brexit þátt í því að Bretar ráði jafn marga starfsmenn frá Afríku og raun ber vitni.

Samkeppnin um heilbrigðisstarfsmenn sé mikil og þegar Evrópa hafi lokast hafi Bretar leitað á ný mið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×