Umfjöllun og viðtöl: Þór - Víkingur 1-2 | Meistararnir í undanúrslit

Árni Gísli Magnússon skrifar
Helgi Guðjónsson skoraði fyrir Víking.
Helgi Guðjónsson skoraði fyrir Víking. Vísir/Hulda Margrét

Í fjórða skiptið í röð verða bikarmeistarar Víkings í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit Mjólkurbikarsins eftir 2-1 sigur á Lengjudeildarliði Þórs fyrir norðan í dag. Baráttuglaðir Þórsarar gáfu toppliði Bestu deildarinnar hörkuleik en það dugði ekki til.

Víkingur fékk draumbyrjun þegar Helgi Guðjónsson skoraði eftir einungis fjögurra mínútna leik. Daniel Dejan Djuric fékk þá sendingu inn fyrir í teiginn og setti boltann snyrtilega utanfótar fyrir markið þar sem Helgi var mættur og skilaði boltanum í netið.

Þórsarar virtust eflast við að lenda undir og uppskáru jöfnunarmark eftir rúmlega stundarfjórðung. Alexander Már Þorláksson vann boltann eftir innkast gestanna við eigin teig og boltinn féll svo fyrir Ingimar Arnar Kristjánsson sem átti skot í stöng og tók frákastið sjálfur og jafnaði leikinn.

Þórsarar voru stálheppnir að lenda ekki undir stuttu seinna þegar misskilningur varð á milli Ómars Castaldo, markmanns, og Elmar Þórs þegar þeir hlupu saman fyrir utan eigin teig en báðir ætluðu að hreinsa boltann í burtu. Boltinn hrökk í stað þess fyrir fætur Daniel Djuric sem tók bakfallsspyrnu en boltinn rétt fram hjá.

Víkingar héldu meira í boltann eins og við mátti búast en Þórsarar eru ekkert lamb að leika sér við á heimavelli og gáfu gestunum alvöru leik. Þeir reyndu að sækja hratt þegar þeir unnu boltann og náðu oft fínum spilköflum inn á milli. Lítið var um færi það sem eftir lifði hálfleiks og staðan jöfn þegar gengið var til búningsherbergjanna góðu.

Martraðabyrjun Þórsara endurtók sig í upphafi síðari hálfleiks því eftir rúmar 40 sekúndur skoraði Ari Sigurpálsson. Það kom hár bolti fram frá Víkingum og Þórsarar töpuðu boltanum á miðjunni í kjölfarið og Helgi Guðjónsson fékk að lokum boltann úti vinstra megin og setti hann fyrir markið þar sem varnarmaður Þórs rak fótinn í boltann sem hrökk beint til Ara sem kláraði færið sitt vel.

Líkt og í fyrri hálfleik virkaði mark frá Víkingum eins og vítamínsprauta fyrir Þórsara og eftir rúmar 10 mínútur fékk hinn ungi Ingimar Arnar Kristjánsson, framherji Þórs, fínt færi á fjærstönginn eftir fyrirgjöf frá Vilhelm Ottó en þurfti að teygja sig aðeins í boltann sem fór að lokum fram hjá.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu út seinni hálfleikinn og fá færi litu dagsins ljós. Helgi Guðjónsson fékk mjög gott færi á 75. mínútu en hitti boltann afar illa og Ómar í marki Þórs handsamaði knöttinn.

Undir lok venjulegs leiktíma átti Ion Perelló frábæra sendingu inn fyrir á Kristófer Kristjánsson sem var kominn einn gegn Þórði Ingasyni í marki Víkings og ætlaði að lyfta boltanum yfir hann en skotið var misheppnað úr sannkölluðu dauðafæri og Víkingar gátu andað léttar.

Lokatölur 2-1 fyrir Víking sem er komið í undanúrslit keppninnar í fjórða skipti í röð.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingarnir refsa oftar en ekki þegar andstæðingurinn gerir mistök líkt og Þórsarar kynntust í dag. Þórsarar spiluðu góðan leik en Víkingar sýndu karakter með því að klára verkefnið. Þessi leikur hefði þó allt eins getað farið í framlengingu.

Hverjir stóðu upp úr?

Helgi Guðjónsson og Daniel Dejan Djuric voru líflegastir hjá Víkingum og komast vel frá sínu í dag.

Ion Perelló var virkilega flottur á miðjunni hjá Þór í dag. Óhræddur við að fá boltann í hvaða stöðu sem er, snúa með hann og taka rétta ákvörðun.

Ingimar Arnar Kristjánsson, 18 ára framherji Þórs, átti góðan leik og skoraði mark. Þarna er mikið efni á ferð. Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sem er árinu eldri, átti einnig flottan leik á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Þór gekk illa að byrja bæði fyrri og seinni hálfleik. Víkingar skora á fjórðu mínútu fyrri hálfleiks og á innan við mínútu í þeim síðari.

Víkingar áttu þá í erfiðleikum með að finna góð færi og fengu heimamenn jafnvel fleiri færi í dag.

Hvað gerist næst?

Víkingur er kominn áfram í undanúrslit en Þór úr leik. Næsti leikur Víkings í Bestu deildinni er heimaleikur gegn Fram sunnudaginn 11. júní kl. 19:15. Næsti leikur Þórs í Lengjudeildinni er gegn Þrótti Reykjavík laugardaginn 10. júní kl. 15:00.

Láki: Bæði mörkin mjög klaufaleg

Þorlákur Árnason starfaði á sínum tíma í Hong Kong.

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, var stoltur af liðinu eftir 2-1 tap gegn Bestu deildar liði Víkings en svekktur að vera dottinn úr leik.

Hvernig er tilfinningin með þessi úrslit?

„Hún er bara súrsæt. Stoltur af mínu liði, fyrst og fremst, en gáfum rosalega ódýr mörk, tvö ódýr mörk og það var svona það sem skildi liðin að. Við fáum auðvitað dauðafæri þarna, Kristján í lokin, sem að hefði sett þetta í framlengingu vonandi en bara stoltur af liðinu en svekktur að detta út.”

Víkingar skora á fjórðu mínútu en Þórsarar jafna leikinn stuttu seinna. Var Láki ekki svekktur þegar Víkingar skora aftur eldsnemma í síðari hálfleik?

„Jú, bæði mörkin voru mjög klaufaleg, töpum boltanum í aðdraganda marksins í fyrri hálfleik, ég hef svona meiri skilning á því þar sem að þú ert að spila við mjög erfitt lið og menn voru með einhvern svona smá hnút í maganum sem að losnaði eftir þetta. Svo er markið í seinni hálfleik alveg hrikalega klaufalegt. Við töpum boltanum inni í teig þar sem er enginn nálægt okkar manni.”

„Ég var að reyna hugsa til baka hvað Ómar hefur þurft að verja í markinu, það hefur ekki verið mikið, en þeir bara refsa okkur og það er oft munurinn á þessum liðum”, bætti Láki við.

Ingimar Arnar Kristjánsson, 18 ára, og Bjarni Guðjón Brynjólfsson, 19 ára, eru tveir efnilegir leikmenn innan raða Þórs og áttu flottan leik í dag ásamt fleirum.

„Það er náttúrulega munur á, Bjarni náttúrulega þó hann sé ungur er hann orðinn mjög reynslumikill og búinn að spila eiginlega alla leiki síðustu tvö ár. Ingimar, þó hann hafi fengið að spila í fyrra, þá er hann núna búinn að vera spila meira en við kannski áttum von á og búinn að vera rosalega flottur þannig jú frábær reynsla en samt sem áður bara svekkjandi að detta út.”

Þórsarar hafa unnið alla þrjá heimaleiki sína í Lengjudeildinni en tapað báðum útileikjum sínum. Næsta verkefni er Þróttur Reykjavík á útivelli.

„Fyrst og fremst skiptir það mestu máli hvað þú ert með mörg stig á töflunni og ég held að stigasöfnunin sé búin að vera fín. Við erum með 9 stig í 5 leikjum og erum á pari í raun en það er alveg rétt og erum alveg meðvitaðir um það að við þurfum að fara ná í punkta á útivelli og ætlum að snúa því við næstu helgi.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira