Erlent

Orrustuþotum flogið til móts við stjórnlausa flugvél yfir Washington DC

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitarsveitir nærri staðnum þar sem flugvélin brotlenti í Virginíu.
Leitarsveitir nærri staðnum þar sem flugvélin brotlenti í Virginíu. AP/Randall K. Wolf

Engin lifði af þegar einkaflugvél brotlenti í Virginíu í Bandaríkjunum í gær. Áður en hún brotlenti var henni flogið beint yfir höfuðborg Bandaríkjanna og svaraði flugmaður hennar ekki fyrirspurnum og virðist flugvélin hafa verið stjórnlaus. Því voru orrustuþotur sendar til móts við hana.

Mörgum íbúum Washington DC var mjög brugðið þegar orrustuþotunum var flogið yfir höfuðborgina. Þotunum var flogið yfir hljóðhraða, með tilheyrandi látum, og töldu margir að um gríðarstóra sprengingu hefði verið að ræða.

Einkaflugvélin, sem var Cessna 560, brotlenti síðar í Virginíu í Bandaríkjunum. Enn liggur ekki fyrir af hverju en heimildarmenn Washington Post segja að hún hafi ekki verið skotin niður. Alls var sex orrustuþotum flogið til móts við flugvélina.

Miðillinn hefur eftir talsmönnum hersins að flugmenn hafi reynt að ná athygli þeirra sem voru um borð í flugvélinni með blysum en það hafi ekki gengið eftir. Flugmaður hennar svaraði aldrei fyrirspurnum en hún brotlenti á endanum í skógi í Virginíu.

Flugvélinni var flogið á loft frá Tennessee í gær og var verið að fljúga henni til Long Island. Henni var þó snúið við yfir New York, samkvæmt AP fréttaveitunni, en ekki er vitað af hverju það var gert, né hvers vegna flugmaður hennar svaraði ekki.

Leið flugvélarinnar lá þó beint yfir höfuðborg Bandaríkjanna og var þess vegna ákveðið að senda orrustuþotur til móts við hana. Joe Biden, forseti, var í golfi en lífverðir hans gripu ekki til aðgerða vegna flugvélarinnar.

Hér má sjá flugleið flugvélarinnar. Verið var að fljúga henni til Long Island í New York. Einhverra hluta vegna sneri hún við yfir Long Island og brotlenti í Virginíu.FlightRadar24

AP hefur eftir lögreglu á svæðinu þar sem flugvélin brotlenti að enginn hafi lifað af. Fluggögn sína að flugvélin hrapaði til jarðar á miklum hraða.

Flugleið flugvélarinnar má sjá hér á vef FlightRadar24.

Blaðamenn AP höfðu samband við eiganda flugvélarinnar, John Rumpel, sem sagði að dóttir hans, tveggja ára dótturdóttir hans, barnfóstra og flugmaður hafi verið um borð í flugvélinni. Þau voru á leið aftur heim eftir frí.

Rumpel sagðist ekki vita hvað hefði gerst en sagðist vonast til þess að þau hafi ekki þjáðst. Hann sagðist telja að liðið hefði yfir alla um borð í flugvélinni en enn liggur ekkert fyrir um það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×