Erlent

Sló met yfir fjölda ferða á topp E­verest

Atli Ísleifsson skrifar
Kami Rita hefur klifið mörg af hæstu fjöllum heims.
Kami Rita hefur klifið mörg af hæstu fjöllum heims. AP

Nepalski sjerpinn Kami Rita hefur slegið met yfir fjölda ferða á topp Everest, hæsta fjall heims. Hann komst á topp Everest í 27. sinn fyrr í dag, þremur dögum eftir að annar sjerpi, Pasang Dawa, hafði jafnað met hans.

Hinn 53 ára Kami Rita leiddi hóp fjallgöngumanna á vegum félagsins Seven Summit Treks upp á toppinn og er hann sagður við góða heilsu eftir gönguna, að því er fram kemur í frétt AP.

Mikill fjöldi fjallgöngumanna bíða nú færis eftir að komast á topp Everest en tímabilið þar sem heimilt er að klífa fjallið hófst um helgina. Mikill fjöldi sérþjálfaðra sjerpa vinna að því að koma fyrir reipum og stígum til að auðvelda fólki, sem hefur til þess leyfi, að klífa tindinn.

Maí er talinn besti mánuðurinn til að klífa Everest þar sem mestar líkur eru þá á góðum veðuraðstæðum. Þegar líður á júní versnar jafnan veðrið og aðstæður verða varasamari.

Kami Rita komst fyrst á topp Everest árið 1994 og hefur farið á topp fjallsins á svo gott sem hverju ári síðan. Hann hefur auk þess komist á topp fjölda annarra af hæstu fjöllum heims, þar með talið K-2, Cho-Oyu, Manaslu og Lhotse.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×