Erlent

Birta myndir af Lúkasjenka til að kveða niður orðróm

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, á mynd sem ríkisfréttastofan Belta birti af honum í dag.
Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, á mynd sem ríkisfréttastofan Belta birti af honum í dag. AP/skrifstofa forseta Hvíta-Rússlands

Nýjar myndir af Alexander Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, voru birtar í dag, að því er virðist til þess að kveða niður orðróm um að forsetinn sé alvarlega veikur. Þær eru þó sagðar vekja nýjar spurningar um heilsu forsetans.

Vangaveltur um heilsu Lúkasjenka fóru á flug þegar hann sást ekki opinberlega í næstum viku. Þar til í dag sást hann síðast á hátíðarhöldum í Moskvu og Minsk vegna sigurs Sovétríkjanna á Þýskalandi í síðari heimsstyrjöldinni 9. maí. 

Í Moskvu virtist forsetinn fölur og þrútinn auk þess sem hann var með sárabindi um hægri höndina. Hann gekk ekki með öðrum leiðtogum nokkur hundruð metra leið frá Rauða torginu að gröf óþekkta hermannsins heldur fékk far með rafbíl.

Lúkasjenka virtist ekki upplitsdjarfur við hátíðarhöld í Moskvu í síðustu viku.AP/Gavriil Grigorov/Sputnik

Hann sleppti hátíðarmorgunverði í Moskvu og flaug heim til Hvíta-Rússlands og tók þátt í hátíðarhöldum þar. Það var í fyrsta skipti í áraraðir sem forsetinn hélt ekki ræðu í tilefni dagsins. Næstu daga eftir það lét hann ekki sjá sig á viðburðum sem hann átti að vera viðstaddur, þar á meðal ríkisstjórnarfund.

Hás og veikróma

Ríkisfréttastofan Belta birti myndir af Lúkasjenka sem voru sagðar teknar í heimsókn í flugherstöð. Skömmu síðar birtist myndband af forsetanum á Telegram-rás sem tengist forsetahöllinni.

Lúkasjenka talaði um rússneskar flugvélar og þyrlur sem voru skotnar niður um helgina í myndbandi sem var birt af honum í dag. Það virðist eiga að staðfesta að myndbandið sé nýtt.AP/skrifstofa forseta Hvíta-Rússlands

AP-fréttastofan segir að markmið myndbirtingarinnar hafi augljóslega verið að kveða orðróm um heilsu forsetans í kútinn. Myndirnar hafi þrátt fyrir það vakið enn frekari spurningar. Þannig var sárabindi nú komið á vinstri hönd forsetans. Hann hljómaði einnig hás og veikróma.

Ríkisstjórnin í Minsk hefur ekkert gefið út á fjarveru forsetans opinberlega þrátt fyrir að hann sé annars vanur að halda langar og tilþrifamiklar ræður nær daglega.

Konstantin Zatulin, rússneskur þingmaður, sagði þarlendum fjölmiðlum á sunnudag að Lúkasjenka væri einfaldlega veikur og að hann þyrfti aðeins á hvíld að halda. Dmitrík Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, svaraði ekki spurningum fjölmiðlar um heilsu hvítrússneska forsetans og benti á að það væri mikilvægt að hlusta aðeins á opinberar upplýsingar frá stjórnvöldum í Minsk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×