Erlent

Serb­neskur ráð­herra hættir í kjöl­far fjölda­morðanna

Atli Ísleifsson skrifar
Fjöldamorðin í Serbíu í vikunni hafa skekið serbnesku þjóðina.
Fjöldamorðin í Serbíu í vikunni hafa skekið serbnesku þjóðina. AP

Ráðherra menntamála í Serbíu, Branko Ruzic, tilkynnti í dag um afsögn sína. Afsögnin kemur í kjölfar tveggja fjöldamorða sem hafa skekið serbnesku þjóðina, en í þeim létust alls sautján manns. Ruzic er fyrsti ráðherrann eða embættismaðurinn til að segja af sér í kjölfar árásanna.

AP segir frá því að ríkisstjórn Serbíu hafi sömuleiðis beint því til landsmanna að skila inn öllum ólöglegum og óskráðum skotvopnum, handsprengjum og skotfærum og koma þeim í hendur lögreglu. 

Sé það gert nú eigi viðkomandi ekki á hættu að verða ákærður vegna brota á vopnalögum, en hundsi fólk orð yfirvalda eiga brotlegir á hættu að verða ákærðir og dæmdir í fangelsi.

Síðastliðinn miðvikudag bárust fréttir af því að þrettán ára drengur hefði skotið átta nemendur og öryggisvörð til bana í barnaskóla í höfuðborginni Belgrad. Á föstudag var svo sagt frá því að karlmaður um tvítugt hefði skotið úr vélbyssu úr bíl sem var á ferð. Hann hafði þá nýverið lent í deilum í lögreglumann í þorpinu Dubona, suðaustur af Belgrad.

Vitað er að gríðarlegt magn skotvopna er að finna í Serbíu og skipar annað sætið í Evrópu á lista yfir skráð vopn miðað við höfðatölu. Nágrannar Serba, Svartfellingar, skipa efsta sætið á þeim lista.


Tengdar fréttir

Var með lista yfir nem­endur sem hann vildi skjóta

Fjórtán ára gamall drengur, sem skaut níu til bana í grunnskóla í miðborg Belgrad í Serbíu í morgun, skipulagði árásina í heilan mánuð að sögn lögreglu. Þá var drengurinn með lista af nemendum sem hann vildi beina spjótum sínum að og búinn að ákveða hvaða skólastofum hann myndi byrja á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×