Fótbolti

Gylfi Þór mættur í stúkuna að Hlíðarenda

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gylfi Þór situr á fremsta bekk í Origo-höllinni
Gylfi Þór situr á fremsta bekk í Origo-höllinni Vísir/Bára Dröfn

Fyrsti leikur Vals og Tindastóls í lokaúrslitum Subway-deildar karla í körfuknattleik er nú í gangi í Origo-höllinni að Hlíðarenda. Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er á leiknum.

Gylfi Þór hefur verið á Íslandi síðustu vikur eftir að hann losnaði úr farbanni á Englandi. Þann 14. apríl var tilkynnt að ekki yrði ákært vegna meintra brota gegn ólögráða einstaklingi, sem hann var handtekinn vegna í júlí 2021. Hafði Gylfi Þór verið í farbanni síðan þá.

Gylfi Þór hefur lítið látið á sér bera eftir að hann kom til landsins og ekki veitt fjölmiðlum nein viðtöl. Þetta er í fyrsta sinn sem hann sést opinberlega síðan hann kom til landsins.

Gylfi Þór á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Bára Dröfn

Gylfi Þór hefur ekki leikið knattspyrnu síðan hann var handtekinn sumarið 2021 en hann var þá samningsbundinn Everton.

Eftir að Gylfi Þór var laus allra mála á Englandi sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, að hún myndi ræða við hann um framhald hans með landsliðinu. Gylfi Þór er samningslaus og engar fréttir hafa borist af því hvert næsta skref hans á ferlinum verður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×